
Aðstandendur sækja á völlinn þrátt fyrir bann
Kvörtunum fjölgar
Síðustu daga hefur borið á því að fólk fari ekki eftir þessu. Almannavarnir hafa fengið fjölda kvartana vegna aðstandenda sem mæta á völlinn til að sækja sitt fólk og halda að það dugi að vera með andlitsgrímu.
Jóhann K. Jóhannsson, upplýsingafulltrúi hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, segir að kvörtunum vegna þessa hafi fjölgað síðustu daga, það haldist í hendur við það að nú séu fleiri vélar að koma til landsins og fleiri farþegar í hverri vél. Það fer hver að verða síðastur. Þeir sem vilja vera lausir úr sóttkví fyrir jól þurfa að koma til landsins á föstudag.
Það telst brot á sóttvarnareglum að sækja nákomna á völlinn, en Jóhann segist ekki vita til þess að sektum hafi verið beitt enn sem komið er. Lögreglan á Suðurnesjum hafi þó verið til taks og leiðbeint fólki í komusal.
Dæmi um að fólk fari í sóttkví með heimkomnum ættingjum
Jóhann segir að töluvert um að fjölskyldur komi til Keflavíkur á tveimur bílum og skilji annan eftir fyrir fjölskyldumeðliminn sem er á leið í skimunarsóttkví. Það sé í fínasta lagi. Hann segir líka dæmi um að fólk velji að fara í sóttkví með þeim heimkomna. Það sé kannski ekki jafn sniðugt enda ekki útilokað að sá sem kemur heim greinist smitaður. Þá eyðir kannski öll fjölskyldan jólunum í einangrun eða sóttkví.