
192 milljónir í orkuskiptastyrki til fyrirtækja
Útlit fyrir að hleðslustöðvum fjölgi
Flestir styrkjanna eiga að nýtast fyrirtækjum, stofnunum eða sveitarfélögum til þess að setja upp hleðslustöðvar eða hraðhleðslustöðvar. Hæsta styrkinn hlaut Þróunarfélag Grundartanga, 12 milljónir, til fjölnýtingar umframvarma, Netgengið ehf. fær tíu milljónir til rafbílavæðingar heimsendingarflota og þess að setja upp hleðslustöðvar. Þá má nefna að leigubílafyrirtækið Hreyfill fær ríflega þriggja milljóna styrk til kaupa á rafmagnsleigubílum og Mjólkursamsalan ætlar að koma upp metandælu á lóð sinni.
Leggja áherslu á bílaleigur og sveitarfélög
Verkefnin eiga það öll sammerkt að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aukinni notkun á innlendri og vistvænni orku. Lögð er áhersla á bílaleigur, samgöngufyrirtæki og sveitarfélög, en einnig er stutt við uppbyggingu innviða til nýtingar á metani og raforku til fóðurpramma í fiskeldi.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fólu Orkusjóði að útdeila þessu fjármagni til verkefnanna 55, og nýttu hluta af því fé sem eyrnamerkt var loftslagsmálum í ár.
Hér má kynna sér styrkina nánar.