Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Það eru gestir sem eru með derring“

15.12.2020 - 14:53
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Starfsfólk sundlauga Reykjavíkuborgar hefur ítrekað þurft að hafa afskipti af því þegar of margir eru í einu í heitum pottum. Flestir bregðast vel við tilmælunum en þó eru mörg dæmi um að fólk bregðist illa við. Skrifstofustjóri hjá ÍTR  hvetur sundlaugagesti til að láta það vera að troða sér ofan í smekkfulla potta svo ekki komi til þess að loka þurfi pottunum.

Í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins þurfti nokkrum sinnum að loka fyrir aðgang að heitum pottum í sundlaugum borgarinnar vegna þess að fólk virti ekki fjöldatakmarkanir.  Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri hjá ÍTR segir að á hverju svæði sundlauganna séu merkingar um hversu margir megi vera þar.

„Við erum með takmarkanir á hvert svæði; hvern pott, gufu, laug, afgreiðslu og svo framvegis. Fólk vill komast í pottana og það eru ekki allir sem eru til í að fara eftir þeim fyrirmælum sem gefin eru eða þeim merkingum sem segja til um hversu margir mega vera í hverjum potti,“ segir Steinþór.

„Það eru gestir sem eru með derring, sem eru ekki alveg að átta sig á því að reglurnar gilda um alla.“

Steinþór segir að ekki hafi verið rætt að loka heitu pottunum vegna þessa og segist vona að ekki þurfi að koma til þess. „Fólk á náttúrulega að taka tillit til þess þegar það sér að það er komið hámark í pottinn. Þá treður þú þér ekki ofan í pottinn. Þá verður fólk óánægt. Eðlilega. Líka taka tillit til annarra,  vera ekki of lengi og hleypa öðrum að.“