Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Stutt en kröftugt gos í Etnu

15.12.2020 - 04:39
Erlent · Hamfarir · eldgos · Ítalía · Evrópa
Etna, eitt virkasa eldfjall Evrópu og jarðarinnar, tók að gjósa aðfaranótt sunnudagsins 14. desember 2020
 Mynd: AP
Eldgos hófst í eldfjallinu Etnu á Sikiley um miðnæturbil á sunnudag. Allt að 200 metra háir hraunstrókar og rauðglóandi hraunelfur sem streymdu niður hlíðar fjallsins lýstu upp nóttina fram á morgun. Þá fór heldur að draga úr eldvirkninni sem þó er ekki lokið.

Gosið varð í suðaustur-gíg fjallsins, sem verið hefur með virkara móti undanfarin ár. Etna er eitt allra virkasta eldfjall Evrópu. Gos eru þar afar tíð. Kröftug gos eins og aðfaranótt mánudagsins standa iðulega skammt, þótt á því séu margar undantekningar. Þá er oft stöðug en tiltölulega lítil eldvirkni á milli stærri gosa og áhöld um hvenær einu gosi lýkur og annað tekur við. 

Fjallið er á austanverðri Sikiley, skammt norður af hafnarborginni Catania, þar sem um 300.000 manns búa. Það rís eina 3.300 metra yfir sjávarmál og er á heimsminjaskrá UNESCO. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV