Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Milljónatjón á bílum: „Stórhættulegt og stóralvarlegt“

15.12.2020 - 08:11
Mynd með færslu
 Mynd: Sigþór Gíslason
Framkvæmdastjóri Vörumiðlunar á Sauðárkróki hefur tilkynnt Vegagerðinni um milljónatjón á fjölmörgum vörubílum fyrirtækisins, vegna blæðinga á vegum á Norður- og Vesturlandi. Hann segir að það sé stórhættulegt að vera í umferðinni við þessar aðstæður.

Lögreglan á Norðurlandi vestra varaði við miklum tjörublæðingum á vegarkaflanum úr Borgarfirði og norður í land í gær, og bað ökumenn að fara varlega. Að minnsta kosti eitt umferðaróhapp má rekja til þessara aðstæðna, skrifaði lögreglan. Vegblæðingar verða yfirleitt þegar veghiti hækkar mikið. Á Holtavörðuheiði hefur hitinn hækkað um jafnvel 15 til 20 gráður á fáeinum dögum þegar hlýnaði í veðri fyrir helgi.

Magnús E. Svavarsson, framkvæmdastjóri Vörumiðlunar, segir að ástandið á vegunum sé skelfilegt.

„Á sunnudaginn förum við suður. Ég hringi í Vegagerðina og þá er einn bíll frá mér kominn í þetta og fleiri tugir kílóa komin utan á bílinn, í dekkin, og hendist í allar áttir. Svo heldur þetta áfram, ég sendi níu bíla suður og þeir eru allir svona, stórskemmdir. Það eru ljós brotin, brettin eru brotin og svo er stórhættulegt að vera í umferðinni þegar þetta spýtist undan hjólum. Dekkin eru full af tjöru og eru þess vegna sleip,“ segir Magnús.

„Þetta er hörmulegt, hvernig þetta er. Og þetta var eins í gær á leiðinni norður. Þeir fóru eitthvað að gera en gerðu voðalega lítið í gær. En eins og ég segi, þá er þetta stórhættulegt og stóralvarlegt mál.“

Eitthvað mikið að

Á hvaða vegakafla er þetta verst?

„Þetta byrjaði og var verst á milli Staðarskála og Hvammstanga en núna er þetta komið alveg frá Hreðavatni og norður í Langadal.“

Ertu búinn að tilkynna um tjón á bílum ykkar?

„Já ég talaði við Vegagerðina í gær og þeir tóku að vísu mjög vel í það, að skoða þetta allt saman. En ég held að þeir geri sér ekki grein fyrir því ennþá hversu alvarlegt þetta er. Þeir sendu bíl til þess að skafa þetta út af veginum á Holtavörðuheiði í gær, þeir sendu verktaka þangað. En þessar klessur koma ekkert af himnum ofan til þess að skafa þær í burtu. Það er eitthvað mikið að í þessari klæðningu, þetta gerist ár eftir ár, að þetta losnar upp.“

Hvað ertu búinn að tilkynna tjón á mörgum bílum hjá ykkur?

„Þetta eru allavega 11 eða 12. Og þeir eru allir stórskemmdir.“

Og þetta hlýtur að vera milljónatjón?

„Þetta eru margar milljónir í þessu,“ segir Magnús.