Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Hliðrun á tímalínunni” gæti flýtt bólusetningum hér

Svandís Svavarsdóttir
 Mynd: RÚV - Skjáskot
„Það er ekki hægt að velta sér upp úr vonbrigðum og væntingum,” segir heilbrigðisráðherra, um þær fregnir að skömmtum frá Pfizer, sem eiga að bólusetja 70.000 Íslendinga, seinkar um óákveðinn tíma. Ráðherra segir Ísland ekki eitt um þessa seinkun, mörg Evrópulönd séu í sömu stöðu. Viðræður við aðra framleiðendur eru enn í fullum gangi. Lyfjastofnun Evrópu ætlar að líklega að taka Pfizer fyrir 21. desember, viku fyrr en áætlað var, og segir ráðherra það geta flýtt bólusetningum á Íslandi.

Heilbrigðisráðuneytið sendi tilkynningu í morgun þar sem fram kom að áætlun Pfizer um afhendingu bóluefna til Íslands hafi raskast og mun færri skammtar komi um áramót en samningar gerðu ráð fyrir. Nú er vitað að alls koma skammtar sem duga fyrir 14.000 Íslendinga um áramót, janúar og febrúar, en samningar við fyrirtækið gera ráð fyrir skömmtum fyrir 85.000 manns. Ekki er vitað hvenær hinir skammtarnir koma til landsins, en ástæðan er sögð hráefnisskortur við framleiðsluna hjá Pfizer. 

Fengu upplýsingar frá Pfizer í gær

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir fleiri lönd en Ísland vera að lenda í þessu. Upplýsingarnar frá Pfizer komu til íslenskra stjórnvalda í gær, en samningurinn var undirritaður á föstudaginn síðasta. 

„Ég held að við séum orðin vön því að hlutirnir fari öðruvísi en við ætlum okkur, þurfum að sýna þolinmæði,” segir Svandís. „Það er ekki hægt að velta sér upp úr vonbrigðum og væntingum. Þessi kafli er að hefjast - kafli bólusetningarinnar.”

Engar breytingar á samningnum aðrar en afhendingartími

Hún segir þetta ekki fela í sér breytingu á samningnum við Pfizer, hann liggi fyrir, heldur snúist þetta einungis um afhendinguna. „Nú þurfum við að tryggja að þessir skammtar berist til landsins og undirbúa aðstæður hér heima. Skipulagsvinnan stendur nú sem hæst.”

Ráðherra undirstrikar að vegna allrar þeirrar óvissu sem er uppi með framleiðslu og dreifingu bóluefnis um allan heim, hafi íslensk stjórnvöld ákveðið strax að „hafa ekki öll eggin í sömu körfu” og landa samningum við nokkra bóluefnaframleiðendur, en nú þegar eru stjónvöld í viðræðum við sex fyrirtæki. 

„Við leggjum áherslu á alla þessa samninga, það hefur verið þannig allan tímann,” segir Svandís. 

Lyfjastofnun flýtir skoðun á Pfizer um viku

Lyfjastofnun Evrópu ætlar nú að taka markaðsleyfi Pfizer fyrir 21. desember næstkomandi, en ekki 29. desember eins og til stóð. 

„Það er hliðrun á tímalínunni, sem gæti fært okkur nær í tíma.” 

Spurð hvort hún telji að seinkun afhendingarinnar frá Pfizer gæti tafið bólusetningarnar hér og þannig baráttuna við sjúkdóminn, segir Svandís svo ekki þurfa að vera. 

„Það virðist vera að teygjast svolítið á tímalínunni þannig að þetta virðist vera að færast nær okkur í tíma á þessum enda. Þannig að mögulega getum við hafið bólusetningar fyrr. Aðallega að skipuleggja bólusetninguna vel og að fyrstu skammtarnir nái yfir viðkvæmustu hópana.” 

Fengu viðbótarupplýsingar í gærkvöld

Lyfjastofnun segir í tilkynningu nú síðdegis að sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) hafi undanfarið unnið hörðum höndum að mati gagna vegna bóluefnis Pfizer/BioNTech til varðandi markaðsleyfi. 

Í gærkvöldi hafi svo borist viðbótarupplýsingar frá fyrirtækjunum og ef mat á þeim gögnum gefur tilefni til verður haldinn sérstakur viðbótarfundur hjá nefndinni 21. desember þar sem vonandi verður hægt að leggja lokamat á markaðsleyfisumsóknina. Fundurinn þann 29. desember verður einnig haldinn verði talin þörf á honum.

[Nefndin] mun ljúka mati sínu eins fljótt og auðið er þegar gögn um gæði, öryggi og virkni bóluefnisins sýna með óyggjandi hætti að ávinningur af notkun bóluefnisins vegi þyngra en áhættan af notkuninni. 

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun að því loknu flýta allri sinni vinnu með það fyrir augum að gefa út markaðsleyfi á fáeinum dögum, en sú vinna er fólgin í yfirlestri á þýðingum o.fl. í þeim dúr en ekki vísindalegu mati.

Tekur það markaðsleyfi gildi í Evrópusambandinu við útgáfu. Hérlendis mun Lyfjastofnun að því loknu vinna að kappi að gefa út íslenskt markaðsleyfi, sem byggir á markaðsleyfi framkvæmdastjórnar ESB, á sem allra skemmstum tíma. Standa vonir til að sú vinna stofnunarinnar taki aðeins fáeina daga.