Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hættustigi lýst yfir á Seyðisfirði vegna skriðufalla

Mynd: Rúnar Snær / RÚV
Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi og Veðurstofu Íslands, hefur ákveðið að lýsa yfir hættustigi vegna skriðufalla á Seyðisfirði. Um 120 manns yfirgáfu heimili sín í dag og enn er talin hætta á skriðuföllum. Gripið var til þessara aðgerða til þess að draga úr líkum á slysum á fólki, en enn má búast við eignatjóni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra sem barst skömmu fyrir miðnættu. Óvissustigi hefur verið lýst yfir á Austurlandi öllu vegna skriðuhættu sem er rakin til mikilla rigninga undanfarið.   Skriður hafa fallið neðarlega í hlíðum á Eskifirði, Seyðisfirði og við utanverðan Fáskrúðsfjörð.

Fréttin var uppfærð klukkan 00:00

„Hún var nokkuð stór þessi síðasta. Hún náði allavega niður að efstu húsum eins og aðrar tvær skriður gerðu í dag. Þannig hún hefur verið nokkuð stór. En hversu miklar skemmdir hafa orðið, það vitum við ekki fyrr en í birtingu,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, Yfirlögregluþjónn á Austurlandi fyrr í kvöld.

Kristján Ólafur segir óvíst hvað það hafa margar skriður fallið í heildina, það verður líka skoðað í birtingu. „Það eru milli 110 og 120 sem munu hafa farið úr 50 húsum sem hafa verið rýmd. Þetta er nokkuð mikill fjöldi sem hefur þurft að fara úr húsunum sínum.“

„Blautt og skítugt“ sagði formaður björgunarsveitarinnar á Seyðisfirði um stöðuna. „Það er talsvert af fólki í fjöldahjálparstöðinni núna sem var sett upp í kjölfar af þessum skriðuföllum,“ segir Kristján Ólafur.

Hvernig líður fólki? „Mér heyrist almennt að fólk sé rólegt. Og tekur þessu með jafnaðargeði.“ Engin slys hafa orðið á fólki en fólk er beðið um að fara öllu með gát.

Vel er fylgst með stöðunni í fleiri fjörðum á Austurlandi. Ekki er gert ráð fyrir að óvissustiginu verði aflétt á morgun. Áframhaldandi vatnsveður er í kortunum næstu daga. „Miðað við að það verði raunin þá verður þetta stig áfram fram að helgi einnig,“ bætir Kristján við.