Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Evrópulönd herða sóttvarnir — útgöngubann og lokanir

15.12.2020 - 16:57
epa08885378 A protective face mask lies on the floor during shopping of the people in the city center at the 'Zeil' in Frankfurt, Germany, 15 December, 2020. Due to an increasing number of cases of the COVID-19 pandemic caused by the SARS CoV-2 coronavirus, new nationwide restrictions have been announced to counteract a rise in infections, as the closing of the single store starting tomorrow 16 December.  EPA-EFE/RONALD WITTEK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjölmörg lönd í Evrópu hafa ýmist hert sóttvarnareglur eða hyggjast gera það næstu daga. Sums staðar er fólki bannað að yfirgefa heimahagana, annars staðar er útgöngubann á vissum tímum sólarhrings og þá er verslunum sem selja annað en nauðsynjar lokað í mörgum löndum. Víða eru jólamarkaðir lokaðir og engar flugeldasýningar verða um áramót.

Á miðnætti tóku gildi strangar sóttvarnaráðstafanir í Hollandi sem gilda munu næstu fimm vikurnar. Allar verslanir, utan þeirra sem selja nauðsynjavöru, öll menningarstarfsemi, hárgreiðslustofur og líkamsræktarstöðvar verða lokaðar. Skólum verður lokað á morgun og Hollendingum er ráðlagt að forðast óþarfa ferðalög fram í miðjan mars. Fólk er beðið um að taka eingöngu á móti tveimur gestum á heimili sínu í þessar fimm vikur, nema á jólunum þegar þeir mega vera þrír.

Ekki flakka á milli jólakúlna

Slakað verður á hluta sóttvarna í Bretlandi yfir hátíðarnar, en frá 23. - 27. desember falla úr gildi tilmæli um að fólk stilli ferðum sínum í hóf, en núna eru hlutar landsins á svokölluðu þriðja og hæsta viðbúnaðarstigi, þar á meðal London. Sóttvarnayfirvöld í Bretlandi hafa gefið út tilmæli um að fólk búi til jólakúlur og í hverri og einni verði ekki fleiri en þrjár fjölskyldur. Bretar eru beðnir um að halda sig við eina jólakúlu og flakka ekki á milli kúlna. Veitingastaðir, krár og allflest innandyra menningar- og skemmtistarfsemi lokar frá og með morgundeginum og fram yfir áramót.

Ferðabann á milli landshluta gengur í gildi á Ítalíu 21. desember og verður í gildi til 6. Janúar. Þá er Ítölum bannað að yfirgefa heimabæi sína og -borgir á jóladag, annan í jólum og á nýársdag nema það sé að fara í vinnu eða brýn nauðsyn sé til. Þá verður í gildi útgöngubann frá klukkan 22 á kvöldin til klukkan 5 að nóttu.

Kirkjur verða opnar, en engir jólamarkaðir verða í ár.

Frakkar fresta rýmkunum

Í dag átti að rýmka sóttvarnareglur í Frakklandi sem hafa verið í gildi síðan í október. Meðal annars átti að opna kvikmyndahús, leikhús og söfn á ný. Í síðustu viku tilkynnti Jean Castex, forsætisráðherra Frakklands, að ekkert yrði úr þessum áformum og að þau myndu frestast fram í fyrstu vikuna í janúar.

Danir herða reglur í þriðja skiptið á rúmri viku

Á morgun taka gildi hertar sóttvarnaaðgerðir í Danmörku, þetta er í þriðja skiptið á rúmri viku sem ríkisstjórn landsins herðir aðgerðir en mikill fjöldi smita greinist nú þar dag eftir dag. Nú ná aðgerðirnar til hluta landsins, en frá og með morgundeginum gilda þær fyrir allt landið og í þeim felst meðal annars að fólki er ráðlagt að halda sig sem mest heima og ekki fara á milil bæjarfélaga, allir veitingastaðir eru lokaðir og skólar eru lokaðir á öllum skólastigum, nema hjá yngstu börnunum.

Þýsku jólamarkaðirnir lokaðir

Hertar sóttvarnaaðgerðir munu taka gildi í Þýskalandi á morgun og gilda til 10. janúar. Í þeim felst meðal annars að öllum verslunum, öðrum en þeim sem selja nauðsynjavörur verður lokað, allir skólar verða lokaðir og ekki mega fleiri en fimm manns frá tveimur heimilum koma saman nema á jólum þegar hvert heimili má taka á móti fjórum gestum. Flestum jólamörkuðum hefur verið aflýst og engar flugeldasýningar verða um áramótin.