Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Engir sálfræðingar í transteymi BUGLS síðan í fyrra

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Engir sálfræðingar hafa fengist til starfa í transteymi barna- og unglingageðdeildar Landspítala, BUGL, þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar á þessu ári. Hefur teymið ekki verið fullmannað síðan sérhæfðir starfsmenn deildarinnar, sem störfuðu innan teymisins, hættu þar störfum 2019.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, upplýsir þetta í skriflegu svari við fyrirspurn Þórunnar Egilsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins. Þórunn spyr hvort transteymi deildarinnar hafi verið fullmannað og segir Svandís svo ekki hafa verið síðan 2019. Teymið hafi engu að síður verið starfandi og „þverfaglegt teymi stjórnenda á BUGL, ásamt öðrum fagaðilum göngudeildar," sinnt skjólstæðingum þess.

Ekki náðst að ráða fólk með réttindi þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir

Þórunn spyr líka hvort fagmenntað starfsfólk hafi fengist í teymið. Því svarar ráðherra neitandi. Teymisstjóri hafi verið ráðinn til starfa hinn 1. desember síðastliðinn og sé nú að hefja aðlögunar- og þjálfunarferli. „Ekki hefur náðst að ráða sálfræðing eða aðra fagaðila með löggilt starfsleyfi frá landlæknisembættinu í teymið, þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar," skrifar Svandís. Hún fullyrðir að öll börn sem þurft hafi þjónustu transteymis BUGL á árinu hafi fengið hana engu að síður.  

Ekki vitað með vissu hve mörg börn hafa byrjað lyfjameðferð

Þórunn spyr einnig hversu mörg börn undir átján ára aldri hafi hafið kynleiðréttingarferli með lyfjameðferð. Við því á ráðherra ekki einhlítt svar heldur segir „allmörg börn" hefja lyfjameðferð fyrir átján ára aldur, en oftar sé hafin kynhormónabælandi meðferð. Nokkur börn eldri en 16 ára hafi þó hafið meðferð með krosshormónum.

Ástæða þess að ekki er hægt að svara þessum lið fyrirspurnarinnar með afdráttarlausum hætti er sú, segir Svandís, að „[g]agnagrunnur til að taka út slíkar tölur með skjótum hætti er ekki til staðar."

Þá kemur fram í svari ráðherra að engin börn hafi „undirgengist skurðaðgerð sem lið í kynleiðréttingarferli, fyrir 18 ára aldur, á meðan þau eru í þjónustu BUGL."

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV