Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Brotist inn í tölvukerfið hjá ráðuneyti netöryggis

Mynd með færslu
 Mynd: DHS - Wikipedia
Hópur útfarinna tölvuþrjóta náði að smeygja sér framhjá öllum rafrænum vörnum bandaríska heimavarnaráðuneytisins um helgina og brjótast inn í tölvukerfi þess. Fjölmiðlar vestra hafa eftir ónefndum heimildarmönnum í ráðuneytinu að grunur leiki á að hakkararnir séu á mála hjá rússneskum stjórnvöldum. Heimavarnaráðuneytið er feikilega valdamikil og fjölmenn stofnun, sem ber meðal annars ábyrgð á öryggi landamæranna og netöryggi.

Þá er ábyrgðin á nýhafinni dreifingu bóluefnis gegn COVID-19 í Bandaríkjunum á herðum embættismanna ráðuneytisins. 

Innbrotið í tölvukerfi heimavarnaráðuneytisins var angi af stærri tölvuárás á sunnudag, sem líka beindist að fjármála- og viðskiptaráðuneytum Bandaríkjanna og fleiri opinberum stofnunum, auk þúsunda bandarískra fyrirtækja. Rannsókn á þessari stórfelldu árás er hafin á vegum heimavarnaráðuneytisins.