Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Breska veiruafbrigðið greinst hér á landamærunum

Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Breskt afbrigði kórónuveirunnar, sem Breta grunar að geti útskýrt hraða útbreiðslu veirunnar þar í landi, hefur greinst á landamærunum hér. Sóttvarnalæknir segir þó ástæðulaust að hafa sérstakar áhyggjur af þessu afbrigði umfram önnur.  

Matt Hancock heilbrigðisráðherra Bretlands greindi frá því í gær að nýtt afbrigði kórónuveirunnar hefði greinst á Englandi og þetta nýja veiruafbrigðið gæti verið ástæðan fyrir hraðri útbreiðslu á suðurhluta Englands. Veirusmitum fjölgar með miklum hraða í og við Lundúnaborg.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að þetta breska afbrigði hafi greinst hér á landamærunum. Erfitt sé að segja til um hvort það sé meira smitandi smitist auðveldar en önnur afbrigði.

„Ég held að það eigi bara eftir að fá betri upplýsingar um það. Þetta eru einhverjar staðhæfingar sem koma frá ráðherra eða einhverjum pólitíkusum. Þannig að ég held að maður myndi nú vilja heyra frá vísindamönnum sem skoða þetta betur, hvort það sé eitthvað til í þessu,“ segir Þórólfur.

Hefur þetta afbrigði greinst hér á landi?

„Það hefur greinst einu sinni á landamærunum en ekkert orðið neitt meiri útbreiðsla,“ segir Þórólfur.

Bóluefnin þrjú sem kaupa á hingað til lands, þau eiga að veita vernd gegn þessu afbrigði?

„Það er það sem menn eiga eftir að skoða. Þetta er sama spurningin og kom upp með minkaafbrigðið í Danmörku. Það kemur í ljós að það eru engin merki þar um að bólusetningin ætti ekki að hafa áhrif eða vernda gegn því afbrigði,“ segir Þórólfur.

Er einhver sérstök ástæða til þess að hafa áhyggjur af þessu breska afbrigði?

„Nei, nei. Ekkert umfram það sem við höfum haft fram að þessu. Þetta eru áhugaverðar fyrstu upplýsingar sem á eftir að staðfesta betur og sannreyna og á meðan það liggur ekki fyrir þá er maður ekki að hafa neinar sérstakar áhyggjur af því,“ segir Þórólfur.