Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Yfirmenn heimtuðu jólagjafir frá starfsfólki

Mynd: RÚV / RÚV

Yfirmenn heimtuðu jólagjafir frá starfsfólki

14.12.2020 - 13:43

Höfundar

Starfsmenn víða í Bandaríkjunum voru í byrjun 20. aldar neyddir til að gefa yfirmönnum sínum jólagjafir en fengu ekkert til baka frá þeim. Þetta setti strik í reikninginn hjá mörgum fjölskyldum um hver jól. Nokkrar konur stofnuðu samtök andgjafasinna árið 1912 og mótmæltu þessum sið og jólagjafaflóðinu yfir höfuð.

Nú hafa margir þeirra Íslendinga sem halda jól tendrað ljós á hirðakertinu, þriðja kertinu í aðventukransinum, og það þýðir að jólahátíðin er á næsta leyti. Það er til siðs að fagna sigri ljóssins með kertaljósi, samverustundum með fjölskyldu og sálmasöng en fyrir flestum eru jólagjafirnar líka óaðskiljanlegur hluti hátíðanna og ekki seinna vænna að huga að þeim.

Á síðustu árum hafa þær raddir þó orðið sífellt háværari sem krefjast þess að dregið sé úr jólagjafaflóðinu sem skellur á mörgum heimilum á aðfangadagskvöld. Því er haldið fram að gjafirnar séu ekkert annað en tákn um óhefta neysluhyggju og umhverfisvænn ósiður. Sitt sýnist væntanlega hverjum um jólagjafirnar en þessar hugmyndir eru þó alls ekki nýjar af nálinni. Í Kósíheitum í Hveradölum með Baggalúti á laugardag settist sögudrottningin Vera Illugadóttir niður við kertaljós og sagði sögu af merkilegum félagasamtökum sem stofnuð voru á Manhattan 1912.

Mynd með færslu
 Mynd: cc
Þær voru harðar í horn að taka konurnar sem kærðu sig ekki um prjál á jólunum.

Félag gegn gagnslausum jólagjöfum

Það var 14. nóvember sem hópur kvenna hittist í samkomusal í New York og stofnaði félag sem þær kölluðu Society for the prevention of useless giving eða Félag gegn gagnslausum gjöfum. „Nú skyldi skorin upp herör gegn gjafabölinu mikla sem varð sífellt meira íþyngjandi fyrir bandarísk heimili um hver jól. Ekki fleiri gagnslausar gjafir og allra síst prjál og drasl, gjafir sem kæmu eiganda sínum ekki til gagns síðar meir,“ segir Vera.

Fengu ekkert í staðinn fyrir gjöfina

Nú hafa skapast miklar umræður um jólagjöf Landspítalans til starfsmanna sinna og ár hvert eru gjafir vinnuveitenda bornar saman. Á þessum tíma var þó annar og undarlegri jólasiður algengur á vinnustöðum í Bandaríkjunum. „Það sem fór ekki síst fyrir brjóstið á félagskonum, öfugt við það sem nú tíðkast víða, var að ætlast var til þess á mörgum vinnustöðum í New York að starfsmenn gæfu yfirmönnum sínum gjafir,“ segir Vera. Þetta gat sett heimilisbókhaldið alveg á hliðina því allir vildu jú þóknast yfirmanni sínum. „Þannig gat meðalverslunarkona á Manhattan búist við að eyða hálfum mánaðarlaunum desembermánaðar í gjöf handa yfirmanninum. Yfirmanninn vildu þær auðvitað ekki styggja. Hún fékk ekkert í staðinn.“

Rifu kjaft og héldu kökubasar

Félagar báru barmmerki með áróðri og rifu kjaft við hvern þann yfirmann sem krafðist jólagjafa frá starfsfólki sínu. Konurnar vöktu mikla athygli og allir vildu vera með. „Í aðdraganda jóla 1912 voru bandarísk dagblöð full af fréttum um félagið og von bráðar gengu þúsundir kvenna til liðs við það,“ segir Vera. „Dansleikir og kvikmyndasýningar trekktu að og sömuleiðis kökubasar.“

Theodore Roosevelt vildi vera með

Til að byrja með var körlum meinaður aðgangur að félaginu þó að umsóknir frá þeim bærust í stríðum straumum. En loks var ákveðið að gera undantekningu. „Það var þegar aðildarbeiðni barst frá sjálfum Theodore Roosevelt fyrrverandi Bandaríkjaforseta sem þráði að leggja sitt af mörkum í stríðinu gegn gjöfunum og endurheimta hinn sanna jólaanda. Ekki var hægt að neita forsetanum fyrrverandi um inngöngu og á eftir honum streymdi fjöldi karla í félagið,“ segir Vera.

Fyrri heimsstyrjöldin hófst

Á jólaballinu árið 1913 reis félagið ef til vill hæst. Þangað mættu þrettán þúsund andgjafasinnar og dönsuðu. „Og af einhverjum ástæðum var það dánardómsstjóri New York sem hélt uppi stuðinu,“ segir Vera. En áhyggjur fólks beindust fljótt í aðrar áttir. „Ekki svo löngu síðar skall fyrri heimsstyrjöldin á og þá voru jólagjafir ekki lengur efst í huga fólks.“

Vera Illugadóttir sagði söguna af andgjafasinnunum í þættinum Kósíheit í Hveradölum sem var á dagskrá á RÚV á laugardögum.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Það er svo lítill krækimáttur í díóðuljósum“

Tónlist

Svona er Aðfangadagskvöld með Daníel Ágústi

Tónlist

Það snjóar