Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Verndarmál kosta dómsmálaráðuneyti um 4 milljarða á ári

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Alls sóttu samtals 2.263 manns um alþjóðlega vernd hér á landi árin 2018 og ´19 og fyrstu tíu mánuði þessa árs. Um helmingur þessara umsókna fór beint í efnislega meðferð hjá Útlendingastofnun og um fjórðungur hafði þegar fengið vernd í öðru EES- eða EFTA-ríki. Meðallengd málsmeðferðar hefur verið rúmir fjórir mánuðir í ár og kostnaður dómsmálaráðuneytisins vegna þessa málaflokks var hátt í 12 milljarðar króna á þessu tæplega þriggja ára tímabili.

Þetta kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ásmundar Friðrikssonar þingmanns Sjálfstæðisflokks.

Í svari ráðherra kemur fram að meðalmálsmeðferðartími hjá Útlendingastofnun hafi verið 133 dagar í ár, sem er styttri tími en árin tvö á undan. Fjöldi samþykktra Dyflinnarendurviðtökubeiðna á grundvelli endanlegrar synjunar í öðru EES/EFTA-ríki var 56 á þessu tæplega þriggja ára tímabili.

Ásmundur spurði um kostnað ráðuneytisins og undirstofnana þess vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd á þessu tiltekna tímabili. Samkvæmt svari ráðherra er hann samtals hátt í 12 milljarðar króna og þar vegur kostnaður Útlendingastofnunar mest, en hann er um 9,3 milljarðar. 

Kostnaður Kærunefndar útlendingamála vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd var um 708 milljónir og þjónustusamningur við Rauða kross Íslands rúmur milljarður.

Kostnaður vegna heimferðar þeirra sem ekki hafa fengið vernd hér á landi árin 2018, ´19 og fyrstu tíu mánuði þessa árs er samtals um 714 milljónir og kostnaður vegna móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd, sem fallið hefur til í ár vegna COVID-19, er rúmar 25 milljónir.