Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Loðnan komin austar en undanfarin ár

Mynd með færslu
 Mynd: Sighvatur Jónsson - RÚV
Mælt verður með veiðum á loðnu á næstunni ef niðurstaða úr rannsóknarleiðangri sem lauk í dag, gefur tilefni til. Loðna er á svæðinu frá Vestfjarðamiðum og austur fyrir Kolbeinseyjarhrygg.

Fjögur veiðiskip komu til hafnar á föstudag úr fimm daga loðnurannsóknum við landsgrunnsbrúnina norður af landinu. Mæld var loðna frá Víkurál úti af Vestfjörðum og austur að Vopnafjarðargrunni. Lítið náðist að mæla á Grænlandssundi vegna hafíss.

Kynþroska loðna við Kolbeinseyjarhrygg

„Loðnu var aðallega að sjá frá svæðinu út af Vestfjörðum og austur fyrir Kolbeineyjarhrygg,“ segir Birkir Bárðarson leiðangursstjóri. „Það voru þarna bæði ungloðna og kynþroska loðna sem er hluti af veiðistofi. Og kynþroska loðnan var bæði út af Vestfjörðunum en þó líka austarlega, eins og við Kolbeinseyjarhrygg.“  

Mælt með veiðum ef mælingin gefur tilefni til

Veiðanleg loðna sé nú komin austar en á þessum árstíma síðustu ár og því sé komin upp nokkuð ný staða. Það komi svo í ljós hvort loðnan fari hefðbunda gönguleið austur og suður með landi til hrygningar. En Birkir segir að niðurstaða úr leiðangrinum eigi að liggja fyrir eftir fáa daga. „Já, ég á von á því að ef mæling á veiðistofni núna gefur tilefni til að mælt sé með veiðum þá verði ráðgjöfin þannig.“