Donald Trump fráfarandi Bandaríkjaforseti birti færslu af þessu tilefni á twitter-síðu sinni þar sem hann óskaði Bandaríkjunum og heimsbyggð allri til hamingju.
Aldraðir og heilbrigðisstarfsfólk eru í fyrsta forgangi í Bandaríkjunum, svokallaður Phase 1a hópur eins og hann kallast í bólusetningaráætlun bandarískra stjórnvalda. Þessi hópur telur um 24 milljónir manna. Í næsta forgangshópi, Phase 2, eru kennarar í leikskólum, á yngsta stigi grunnskóla og aðrir sem vinna með börnum. Þá er í honum fólk sem starfar við smásöluverslun, flutninga og samgöngur, starfsmenn athvarfa fyrir heimilislausa og fólk eldra en 65 ára sem ekki telst í fyrsta forgangshópi.
Í þessum tveimur forgangshópum eru samtals 45-50% af íbúafjölda Bandaríkjanna. Ólíklegt þykir að bandarískum almenningi verði gefinn kostur á bólusetningu fyrr en í fyrsta lagi um mitt næsta ár.
Kanadamenn byrja að bólusetja
En Bandaríkin eru ekki eina landið þar sem bólusetningar við kórónuveirunni eru að hefjast. Ráðgert er að dreifing á bóluefni Pfizer og BioNTech hefjist í Kanada í dag, en Kanadamenn eiga von á um 250.000 skömmtum í þessum mánuði og í dag koma 30.000 skammtar til landsins. Það verður fyrst gefið öldruðum og heilbrigðisstarfsfólki í Quebec og Ontario sem eru þau fylki landsins sem verst hafa orðið úti í faraldrinum.
Kanadísk stjórnvöld pöntuðu 20 milljón skammta af bóluefninu á meðan það var enn á tilraunastigi með vilyrði um 56 milljón skammta til viðbótar.
Almenn bólusetning með bóluefni kínverska lyfjafyrirtækisins Sinopharm er einnig hafin í Abu Dhabi, höfuðborg Sameinuðu arabísku furstadæmanna.
Bólusett í Singapúr í lok þessa mánaðar
Yfirvöld í Singapúr hafa einnig samþykkt bóluefni Pfizer og BioNTech, búist er við að fyrstu skammtarnir komi til landsins í lok mánaðarins og munu bólusetningar hefjast strax í kjölfarið. Aldraðir, fólk með undirliggjandi sjúkdóma og heilbrigðisstarfsfólk verður í forgangi.
Lokaprófanir á bóluefni CureVac
Þýska líftæknifyrirtækið CureVac tilkynnti í dag um að lokaprófanir væru nú hafnar á kórónuveirubóluefni þess. Evrópusambandið hefur þegar tryggt sér 225 milljón skammta af lyfinu, gangi prófanir eftir, með vilyrði um 180 milljón skammta til viðbótar.