Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hjúkrunarfræðingur fékk fyrstu sprautuna

epa08883791 Sandra Lindsay (L) a nurse at Long Island Jewish Medical Center, is inoculated with the COVID-19 vaccine by Dr. Michelle Chester (R) in the Queens borough of New York, New York, USA, 14 December 2020. The rollout of the Pfizer and BioNTech vaccine, the first to be approved by the Food and Drug Administration, ushers in the biggest vaccination effort in US history.  EPA-EFE/MARK LENNIHAN / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL
Sandra Lindsay, hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild Long Island Jewish Medical Center sjúkrahússins í New York ríki í Bandaríkjunum, fékk fyrstu kórónuveirusprautuna í bólusetningunum vestanhafs sem hefjast í dag. Þetta er ein stærsta heilbrigðisaðgerð sögunnar, en í þessari fyrstu afhendingu bóluefnis lyfjaframleiðandanna Pfizer og BioNTech eru þrjár miljónir skammta.

Donald Trump fráfarandi Bandaríkjaforseti birti færslu af þessu tilefni á twitter-síðu sinni þar sem hann óskaði Bandaríkjunum og heimsbyggð allri til hamingju.

Aldraðir og heilbrigðisstarfsfólk eru í fyrsta forgangi í Bandaríkjunum, svokallaður Phase 1a hópur eins og hann kallast í bólusetningaráætlun bandarískra stjórnvalda. Þessi hópur telur um 24 milljónir manna. Í næsta forgangshópi, Phase 2, eru kennarar í leikskólum, á yngsta stigi grunnskóla og aðrir sem vinna með börnum. Þá er í honum fólk sem starfar við smásöluverslun, flutninga og samgöngur, starfsmenn athvarfa fyrir heimilislausa og fólk eldra en 65 ára sem ekki telst í fyrsta forgangshópi.

Í þessum tveimur forgangshópum eru samtals 45-50% af íbúafjölda Bandaríkjanna. Ólíklegt þykir að bandarískum almenningi verði gefinn kostur á bólusetningu fyrr en í fyrsta lagi um mitt næsta ár.

Kanadamenn byrja að bólusetja

En Bandaríkin eru ekki eina landið þar sem bólusetningar við kórónuveirunni eru að hefjast. Ráðgert er að dreifing á bóluefni Pfizer og BioNTech hefjist í Kanada í dag, en Kanadamenn eiga von á um 250.000 skömmtum í þessum mánuði og í dag koma 30.000 skammtar til landsins. Það verður fyrst gefið öldruðum og heilbrigðisstarfsfólki í Quebec og Ontario sem eru þau fylki landsins sem verst hafa orðið úti í faraldrinum. 

Kanadísk stjórnvöld pöntuðu 20 milljón skammta af bóluefninu á meðan það var enn á tilraunastigi með vilyrði um 56 milljón skammta til viðbótar.

Almenn bólusetning með bóluefni kínverska lyfjafyrirtækisins Sinopharm er einnig hafin í Abu Dhabi, höfuðborg Sameinuðu arabísku furstadæmanna. 

Bólusett í Singapúr í lok þessa mánaðar

Yfirvöld í Singapúr hafa einnig samþykkt bóluefni Pfizer og BioNTech, búist er við að fyrstu skammtarnir komi til landsins í lok mánaðarins og munu bólusetningar hefjast strax í kjölfarið. Aldraðir, fólk með undirliggjandi sjúkdóma og heilbrigðisstarfsfólk verður í forgangi. 

Lokaprófanir á bóluefni CureVac

Þýska líftæknifyrirtækið CureVac tilkynnti í dag um að lokaprófanir væru nú hafnar á kórónuveirubóluefni þess. Evrópusambandið hefur þegar tryggt sér 225 milljón skammta af lyfinu, gangi prófanir eftir, með vilyrði um 180 milljón skammta til viðbótar.