Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leitt að enginn frá Óperunni hafi mætt í dómsal

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á föstudag fór fram aðalmeðferð í máli Þóru Einarsdóttur óperusöngkonu gegn Íslensku óperunni. Þóra stefndi Óperunni fyrir kjarasamningsbrot á æfingum og sýningum í uppfærslu Óperunnar á Brúðkaupi Fígarós í fyrra. Með dómsmáli segist Þóra hafa viljað freista þess að láta á það reyna hvort Íslensku óperunni bæri að fara að kjarasamningi við FÍH og virða vinnuverndarákvæði.

Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri var ekki viðstödd aðalmeðferðina, og enginn úr stjórn Íslensku óperunnar.

„Mér þótti leitt að það væri enginn þarna til að heyra hvað mér býr í brjósti og um það hvað málið snýst. Maður hefði haldið að það væri þeirra hagur, og allra, að fá þessi mál á hreint,“ segir Þóra í samtali við fréttastofu. 

Deila um það hvort kjarasamningur gildi

Íslenska óperan frumsýndi Brúðkaup Fígarós í september í fyrra. Nokkrir einsöngvaranna í sýningunni kvörtuðu undan óhóflegu vinnuálagi og leituðu til stéttarfélags, Félags íslenskra hljómlistarmanna, FÍH. Gunnar Hrafnsson, formaður félagsins, hefur sagt að samanlagðar launakröfur þeirra hafi verið um fjórar milljónir króna.

Í samningi Þóru við Óperuna er vísað til kjarasamnings FÍH við Óperuna. Óperustjóri hefur hins vegar sagt að kjarasamningur Íslensku óperunnar og FÍH hafi aðeins gilt þegar einsöngvarar voru fastráðnir við Íslensku óperuna en það séu þeir ekki lengur. Hún þurfi því ekki að fara eftir honum. Gunnar sagði hins vegar í samtali við fréttastofu í apríl að samningnum hefði aldrei verið sagt upp og því ætti hann að gilda sem viðmið um lágmarkslaun.

Þóra segir mikilvægt að það komist niðurstaða í málið svo söngvarar viti hvar þeir standa.

Veik samningsstaða söngvara 

Þóra birti í dag færslu á Facebook þar sem hún vakti athygli á stöðu ungra söngvara á Íslandi og kallaði eftir samstöðu söngvara. Þar segir að framúrskarandi ungir söngvarar eigi ekki kost á starfsvettvangi á Íslandi sem er tryggður af hinu opinbera þar sem væri farið eftir kjaratöxtum og lögbundin réttindi virt. 

Hún skrifar að ungum söngkonum „sem eru það framúrskarandi að þær fá aðalhlutverk í óperu, býðst að koma til Íslands á eigin kostnað til þess að gleðja Íslendinga og styðja við óperuflutning á Íslandi. Þær læra og undirbúa hlutverk á eigin kostnað og fá svo að æfa í eins og sex vikur, sex daga vikunnar fyrir 300.000,- heildarverktakagreiðslu. Þær fá ekki greiddan uppihaldskostnað þó þær búi í útlöndum og ekki heldur yfirvinnu auk þess að afsala sér öllum flytjendarétti. Ákvæði í samningi FÍH og Óperufyrirtækisins um vinnuvernd eru ekki virt. Þær eru ekki í sterkri samningsstöðu gagnvart eina fyrirtækinu sem stendur fyrir óperuflutningi.“

„Hvað hefur gerst hjá söngvurum á Íslandi?“

Hún bendir á að söngvarar, með að meðaltali tíu ára nám að baki, eigi hér á landi í hættu að þurfa, 20 árum síðar, „að standa í því að sækja fyrir rétti að ekki megi gera samninga undir taxta, og eiga um það umræður í réttarsal hvort virða beri hvíldartíma samkvæmt FÍH samningum og hvort sá tími sem þær eru boðaðar í hár og förðun af óperuhúsinu sé utan vinnutíma eða ekki; eitthvað sem er innan vinnutíma í leikhúsum, kvikmyndum, sjónvarpi og hjá sýningarfólki.“ 

Þá kallar hún eftir samstöðu söngvara: „Hvað hefur gerst hjá söngvurum á Íslandi? Ekki er þetta svona í nágrannalöndunum. Mín von er að þessi staða batni og framtíð söngvara og óperu á Íslandi sé björt. Ég mun leggja mitt af mörkum til þess. En til þess þurfa líka söngvarar að sýna samtakamátt.“

Fréttin hefur verið leiðrétt. Upphaflega sagði að óperustjóri hefði verið boðuð í aðalmeðferðina en samkvæmt lögmanni Íslensku óperunnar var hún ekki boðuð. 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV