Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Langt í land í rannsókn á njósnum lögreglunnar

13.12.2020 - 08:36
epa03240278 Theresa May, British Home Secretary, arrives at the Royal Courts of Justice in London, Britain, 29 May 2012. The Leveson inquiry was set up following the phone-hacking scandal that led to the closure of the British tabloid newspaper News of
 Mynd: epa
Í nóvember síðastliðnum hófust loks í Bretlandi vitnaleiðslur í risastóru njósnamáli, sem hefur verið til rannsóknar í mörg ár. Margar minni rannsóknir höfðu farið fram þegar Theresa May, sem þá var innanríkisráðherra Bretlands, setti opinbera rannsókn á leynilögreglu, The Undercover Policing Inquiry, á laggirnar árið 2014 í kjölfar ýmissa opinberana í fjölmiðlum.

Tæpum sex árum síðar hófust loks vitnaleiðslur, og þeim lýkur sennilega ekki fyrr en í fyrsta lagi árið 2023. Um er að ræða einhverja flóknustu, dýrustu og seinlegustu opinberu rannsóknina í sögu Bretlands – en hún þykir líka afskaplega mikilvæg. Hún snýr að mjög alvarlegum ásökunum um kerfisbundna misbeitingu og misnotkun lögreglumanna sem störfuðu með leynd innan alls konar hópa aðgerðasinna.  

Málið nær allt aftur til sjöunda áratugs síðustu aldar, þegar sérstök deild innan lögreglunnar hóf að rannsaka hópa aðgerðasinna sem mótmæltu Víetnamstríðinu. Deildin þróaðist út í að fylgjast með fjölbreyttum pólitískum hópum og hreyfingum, sem trúðu á ýmsa málstaði. Flestir hópanna voru til vinstri í stjórnmálaskoðunum. Önnur njósnadeild starfaði með svipuðum hætti, aðallega utan London. Báðar deildirnar hafa nú verið leystar upp.  

Svo mikil leynd ríkti yfir þessum leiðöngrum lögreglumannanna að margir háttsettir lögregluforingjar vissu ekki einu sinni af tilvist deildanna fyrr en þeir fóru að lesa greinar sem birtust í breska blaðinu Guardian fyrir tíu árum eða svo.  

Upphafið að málinu  

Í ljós hefur komið að minnst 139 lögreglumenn hafa tekið þátt í aðgerðum af þessu tagi allt frá árinu 1968. Þeir njósnuðu um fólk í um þúsund hópum, sem snéru margir að umhverfisvernd, dýravernd, kynþátta- og kynjajafnrétti, verkalýðsbaráttu og fleiru. Það var líka njósnað um stjórnmálamenn innan Verkamannaflokksins. Rúmlega 200 manns eru beinir aðilar að málinu, en hægt er að lesa nánar um hópana á vefsíðu hópsins Police Spies Out Of Lives

Upphaf þessara uppljóstrana má rekja til konu, sem í fjölmiðlum hefur gengið undir dulnefninu Lisa Jones. Árið 2010 var hún á ferðalagi á Ítalíu með kærasta sínum til sex ára, Mark Stone. Þau voru bæði aðgerðasinnar í umhverfisverndarhreyfingu. Mark hafði farið í hjólatúr og Lisa varð eftir. Hún fór í bílinn þeirra til að leita að sólgleraugunum sínum og fann vegabréf Mark. Nafnið á vegabréfinu var hins vegar ekki Mark Stone, heldur Mark Kennedy. Í kjölfarið fór hún í símann hans, sem líka var í bílnum, og fann þar skilaboð frá tveimur börnum sem kölluðu hann pabba.  

Nokkru síðar, eftir að Lisa hafði fengið hjálp vina við að komast að því hver þessi maður var í raun og veru, var gengið á hann. Hann brotnaði saman og játaði að hann væri í raun og veru lögreglumaður í leynilegri aðgerð að njósna um þau öll. Kennedy hafði tekið þátt í fjölmörgum mótmælum og annars konar aðgerðum um margra ára skeið. Hann ferðaðist til 22 landa sem aðgerðasinninn Mark Stone, meðal annars kom hann við hér á landi og mótmælti byggingu Kárahnjúkavirkjunar ásamt meðlimum Saving Iceland hópsins árið 2005.  

Kennedy hafði lifað tvöföldu lífi í að minnsta kosti sjö ár. Hann kom sér inn í hreyfingu umhverfisverndarsinna þó deilt sé um hversu mikilvægu hlutverki hann gegndi þar. Í það minnsta gerði hann talsvert meira en að vera aðgerðalaus njósnari. Hann var líka hluti af anarkistahópum og hópum sem börðust gegn kynþáttamisrétti.  

Það kom á daginn að hann hafði átt í fjölda ástarsambanda við konur í aðgerðahópum og engin þeirra vissi hver hann var í raun og veru.

Lisa Jones hélt að hún væri einangrað dæmi þegar hún komst að því að hinu sanna um manninn sinn.  Fram að því hélt hún að hún hefði fundið lífsförunaut. Áður en þau tóku saman hafði hann verið í öðru sambandi, við konu sem heitir Kate Wilson.  

Báðar hafa konurnar lýst því hvernig hann varð hluti fjölskyldunnar, fór í afmæli og jarðarfarir með þeim og var bara á allan hátt lífsförunautur.  En svo var hann ekki Mark Stone, heldur Kennedy. Giftur, átti tvö börn, og hann var í vinnunni þegar hann var með þeim.  

Aðgerðasinnar og blaðamenn Guardian, þeir Rob Evans og Paul Lewis, tóku höndum saman og unnu að fyrstu uppljóstrunum um þessi mál. Fyrst um sinn var reynt að láta líta út fyrir að Kennedy hefði bara farið gegn skipunum, verið einn að verki. Smátt og smátt hefur sannleikurinn þó komið í ljós.  

Átta konur fá bætur

Árið 2015 var samið við fyrstu konurnar sem komu fram, átta talsins. Frá því var greint með yfirlýsingu lögreglunnar, og Martin Hewitt aðstoðarlögreglustjóri hjá Metropolitan lögreglunni bað konurnar afsökunar.  

Það sé að miklu leyti hugrekki kvennanna að þakka að málið kom fyrir sjónir almennings, og lögreglunnar. Það hafi komið í ljós að einhverjir lögreglumenn hafi hafið kynferðisleg sambönd við konur sem þeir voru að njósna um. Konurnar hafi með þessu verið misnotaðar, þær sviknar og samböndin hafi verið röng. Þetta hafi brotið gegn mannréttindum þeirra, hafi falið í sér misbeitingu á lögregluvaldi og hafi valdið áföllum. Hann bað konurnar innilega afsökunar fyrir hönd lögreglunnar.  

Hewitt sagði lögregluna viðurkenna að svona lagað mætti aldrei endurtaka sig og að stíga yrði nauðsynleg skref til þess að tryggja það. Það væri löglegt og mikilvægt að lögreglan gæti starfað í leyni, en aldrei mætti misnota slíkar aðgerðir. 

En konurnar voru alls ekki átta. Þær eru að minnsta kosti þrjátíu, sem áttu á einhverjum tímapunkti í ástarsambandi við menn sem voru ekki til, heldur voru bara tilbúningur leynilögreglumannanna sem léku þá og yfirmanna þeirra.  

Flestar eru konurnar sammála um að svikin séu ólýsanleg. Þessir menn hurfu yfirleitt sporlaust úr lífi þeirra, oft eftir að hafa gert sér upp andleg veikindi. Stundum sendu þeir póstkort frá útlöndum, og sögðust vera fluttir, en oft leituðu konurnar að svörum í mörg ár.  Að minnsta kosti þrjú börn fæddust inn í svona sambönd.  

Grunur leikur á um að tvær lögreglukonur hafi átt í kynferðislegum samskiptum við menn sem þær njósnuðu um, önnur þeirra strax í upphafi aðgerða af þessu tagi. Slík dæmi eru líka til af körlunum. Þetta þykir einhverjum benda til þess að kynferðisleg sambönd hafi talist eðlileg hegðun meðal þessara lögreglumanna. Slík sambönd hafi beinlínis verið notuð til að komast lengra inn í hópana sem þeir voru að afla upplýsinga um.  

Notuðu nöfn látinna barna

En það er fleira sem hefur vakið óhug fólks í þessu máli. Það var algengt að njósnararnir notuðu nöfn og auðkenni barna sem höfðu látist ung að aldri. Þetta var gert í tugum tilfella, og fjölskyldur nokkurra af þessum börnum hafa nú farið í mál við lögregluna. Þær segja upplýsingar um börnin hafa verið misnotaðar, og að lögreglan hafi troðið sér inn í sorg þeirra.  

Lögreglan segist ekki geta tjáð sig um þessi mál, það sé enn verið að rannsaka þetta, sem fjölskyldurnar hafa sumar undrast, enda sjö ár síðan greint var frá þessari háttsemi.  

Njósnað um fjölskyldur myrtra

Einnig hefur komið í ljós að í einhverjum tilvikum njósnaði lögreglan um fjölskyldur myrtra manna, samhliða því að rannsaka sjálf málin. Dæmi um það er Ricky Reel, sem lést árið 1997. Ráðist var á hann og vini hans á leið heim í London, og árásin var rasísk. Skömmu síðar hvarf hann. Fjölskyldan barðist fyrir því að andlát hans yrði rannsakað sem morð, en lögreglan sagði hann hafa fallið í Thames ánna og látist af slysförum.  Í ljós hefur komið að njósnarar fylgdust með fjölskyldunni hans.

Annar ungur maður, Stephen Lawrence, var stunginn til bana árið 1993. Hann var svartur, árásin á hann var líka vegna kynþáttahaturs, og rannsóknarnefnd hefur komist að því að kerfisbundin kynþáttahyggja innan lögreglunnar hafi hamlað rannsókninni á morði hans, sem enginn var dæmdur fyrir fyrr en 2012. Þá hefur líka komið í ljós að njósnað var um foreldra hans, þegar þau reyndu að fá morðið á syni sínum rannsakað. Það var eftir þetta mál sem Theresa May ákvað að njósnamálin skyldu rannsökuð almennilega.  

Fyrir rannsókninni fer Sir John Mitting, dómari á eftirlaunum. Undir honum starfa um níutíu manns. Rannsóknin beinist sérstaklega að þessum tveimur deildum leynilögreglumanna en heimild er til að rannsaka annað sem kemur upp.  

Það á að rannsaka hversu miklu leynilögregluverkefni af þessu tagi hafa raunverulega skilað þegar kemur að því að takast á við glæpi. Það á líka að skoða hvernig þessu hefur verið stjórnað og fylgst hefur verið með framferði lögreglumannanna, og áhrifin á bæði lögreglumennina og þá sem þeir hafa átt í samskiptum við. 

Rannsóknin er ekki óumdeild, og framkvæmd vitnaleiðslanna sem hófust í nóvember ekki heldur. Ekkert lifandi streymi hefur verið frá vitnaleiðslunum, og vegna Covid 19 má almenningur ekki heldur mæta á staðinn og fylgjast með. Eftirrit af vitnaleiðslunum er gert opinbert, en ekki í rauntíma. Þá var ákveðið að allir sem hlut eiga að máli geti óskað eftir nafnleynd, og margir hafa fengið slíkar beiðnir samþykktar. Raunveruleg nöfn 119 einstaklinga verða ekki gerð opinber og ekki heldur 51 gervinafn lögreglumanna. Margir eru ósáttir við þetta, meðan gervinöfnin eru ekki þekkt þá er ekki hægt að vita hversu útbreitt þetta var.  

Enn engin svör

Konurnar sem voru í ástarsamböndum með njósnurum hafa sagst engin svör hafa fengið við því hvers vegna þetta fékk að viðgangast. 

Það er sameiginlegt með mörgu þessu fólki sem telur lögregluna hafa brotið á sér. Hvers vegna? Hvers vegna þau? Og hvers vegna svona? Fólkið sem rætt hefur verið um hér var upp til hópa friðsamlegt. Auðvitað er það ekki algilt, og líka hefur verið njósnað um annars konar hópa á þessu tímabili, og komið í veg fyrir glæpi.  

Kate Wilson, ein kvennanna sem átti í sambandi við Mark Kennedy, segir að lögreglumönnum hafi verið tíðrætt um að þau væru vinstri öfgasinnar. Fyrir utan þessa trú lögreglumannanna á því að þau væru öfgasinnar, þá var fátt, segir hún, sem bendir til þess að raunveruleg glæparannsókn hafi farið fram. Þetta voru bara pólitískar njósnir, eitthvað sem fólk héldi að gerðist bara í Austur-Þýskalandi, en ekki Bretlandi. 

Langt í land enn

Rannsókninni er langt frá því að vera lokið. Vitnaleiðslurnar sem búnar eru snúast bara um allra fyrstu árin, allt hitt er enn eftir. Vitnaleiðslurnar standa líklega til ársins 2023, og margt er enn á huldu. Reynt hefur verið að skýra lagagrundvöllinn fyrir njósnum og leynilögregluaðgerðum, en frumvarpið hefur valdið töluverðum deilum.  

Yfirmenn lögreglunnar hafa verið spurðir hvort svipaðar aðferðir séu áfram notaðar til að njósna um pólitíska aðgerðasinna, þrátt fyrir að deildirnar alræmdu hafi verið leystar upp. Þeir neita að segja til um það.  

thorunneb's picture
Þórunn Elísabet Bogadóttir
dagskrárgerðarmaður