Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Frelsuðu rúmlega 20 manns úr þrælakistu á Spáni

Skjáskot úr myndskeiði spænsku lögreglunnar frá frelsun illa haldins farandverkafólks í Murcia héraði, haustið 2020
 Mynd: Lögeglan á Spáni - Lögreglan á Spáni
Lögregla á Spáni bjargaði á dögunum hópi farandverkafólks úr hörmulegum aðstæðum í vöruskemmu í bænum Fuente Álamo í Murcia-héraði. Í tilkynningu lögreglu segir að fólkið hafi verið neytt til að vinna langa vinnudaga við ömurlegan aðbúnað í flokkunarstöð fyrir notuð föt, sem safnað er á Spáni og seld til Afríku. Fyrir stritið fengu þau greiddar tvær evrur á tímann, um þrjú hundruð krónur íslenskar.

Á myndskeiði sem lögreglan birti má sjá fólk frelsað úr prísund sinni í leyniherbergi sem falið var á bak við háa fatastafla. Þegar lögregla réðist til inngöngu í vöruskemmuna tók verkstjórinn að hrópa á starfsfólkið og segja því að fela sig, segir í tilkynningu lögreglu. Fjórir úr hópnum hlupu út og forðuðu sér yfir girðingu sem umlykur skemmuna en önnur lokuðu sig inni í vöruskemmunni.

Þegar lögregla komst inn í skemmuna fann hún meðal annars átta manns í fylgsni á bak við röð vagna sem hlaðnir voru háum fatastöflum. Hermt er að fylgsni þetta hafi verið sérstaklega útbúið fyrir fólkið að fela sig í, ef ske kynni að lögregla kæmi á staðinn. Alls var 21 manneskja frelsuð úr klóm þessara nútíma þrælahaldara.

Feðgar handteknir

Þrír menn, faðir og tveir synir hans, hafa verið handteknir vegna málsins. „Hinir handteknu réðu til sín erlenda ríkisborgara í erfiðum aðstæðum og neyddu þá til að vinna langan vinnudag án nokkurra lagalegra réttinda,“ segir í fréttatilkynningu lögreglu. „Þeir notfærðu sér varnarleysi þeirra og neyð, til að þvinga þá til vinnu við slæmar aðstæður.“

Hreinlætisaðstaða var öll í skötulíki í skemmunni, segir lögregla, og ekkert hirt um öryggi starfsfólksins. Feðgarnir verða leiddir fyrir rétt í Cartagena.