Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fulltrúadeild Argentínuþings heimilar þungunarrof

epaselect epa08876881 Women celebrate the approval of the new abortion law in front of the Congress, in Buenos Aires, Argentina, 11 December 2020. The new abortion bill would allow to get an abortion until the 14th week of pregnancy.  EPA-EFE/Juan Ignacio Roncoroni
Baráttukonur fyrir rétti kvenna til að ráða eigin líkama fagna samþykkt þungunarrofsfrumvarpsins í fulltrúadeild þingsins Mynd: EPA-EFE - EFE
Meirihluti þingmanna í fulltrúadeild Argentínuþings samþykkti í gærkvöld frumvarp sem eykur mjög rétt kvenna til að undirgangast þungunarrof. 131 þingmaður samþykkti frumvarpið en 117 voru á móti. Til að lögin öðlist gildi þarf öldungadeild þingsins líka að samþykkja þau. Stjórnmálaskýrendur telja að enn mjórra verði á mununum þar en í fulltrúadeildinni. Svipað frumvarp var samþykkt í fulltrúadeildinni fyrir tveimur árum en fellt í öldungadeildinni.

40.000 konur á sjúkrahús árlega vegna ólöglegra aðgerða

Í dag er þungunarrof því aðeins heimilt í Argentínu að þungunin sé afleiðing nauðgunar eða stofni lífi og heilsu móður í hættu. Lagabreytingin er í samræmi við kosningaloforð Albertos Fernández, Argentínuforseta, sem lagði frumvarpið fyrir þingið. Verði það að lögum verður þungunarrof heimilt fram í fjórtándu viku meðgöngu.

Fernández segir lögin bjarga mannslífum, enda lendi nær 40.000 argentínskar konur á sjúkrahúsi á ári hverju vegna afleiðinga misheppnaðra, ólöglegra þungunarrofsaðgerða.