Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Árangur í loftslagsmálum látið á sér standa

12.12.2020 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Fimm árum eftir að Parísarsamkomulagið var samþykkt hefur árangur í loftslagsmálum látið á sér standa. Þetta sagði Antonio Guterres , aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á sérstökum leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í dag. Hann kallar eftir því að þjóðir heims lýsi yfir neyðarástandi í loftslagsmálum.

Guterres hvatti  leiðtoga heimsins til að láta af árásum á plánetuna og lýsa yfir neyðarástandi þar til kolefnishlutleysi næst. Hann sagði að það ætti að vera höfuðmarkmið allra þjóða að draga úr losun um 45 prósent fyrir árið 2030 og ná algjöru kolefnishlutleysi fyrir árið 2050.

„Fimm árum eftir að Parísarsamkomulagið var samþykkt erum við ekki ennþá á réttri leið. Í París var lofa að meðalhitastig á Jörðinni myndi ekki hækka meira en um eina og hálfa gráðu, en þær skuldbindingar sem voru gerðar í París duga ekki til þess að ná því markmiði, og við erum ekki einu sinni að uppfylla þau skilyrði. Styrkur kolefniss er í sögulegu hámarki. Í dag eru 1,2 gráðu hlýrra heldur en fyrir iðnbyltingu. Ef við breytum ekki um stefnu gæti hitinn hækkað um allt að þrjár gráður á þessarri öld með skelfilegum afleiðingum. Getur einhver neitað því lengur að við stöndum frammi fyrir meiriháttar neyðarástandi? Þess vegna hvet ég leiðtoga heimsins til að lýsa yfir neyðarástandi í löndum sínum þar til kolefnishlutleysi næst. 38 lönd hafa nú þegar gert það  og þar með gert sér grein fyrir þeirri vá sem steðjar að. Ég hvet alla til að fylgja því fordæmi.“ sagði Guterres. 

Guterres segir að stund sannleikans sé runnin upp, en einnig stund vonar. Sífellt fleiri samfélög, efnahagskerfi og borgir sjái hag sinn í því að lifa sjálfbærara lífi. Krafa ungs fólks sé skýr um að axla ábyrgð á umhverfismálum og það ætlast einnig til þess af öðrum. Hugarfarsbreyting sé að eiga sér stað. Umhverfismál sé mælilkvarði stjórnmála nútímans.  Hann sagði að nú reyni á áreiðanleika og traust fyrir komandi kynslóðir.
 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er meðal þeirra sem ávarpa ráðstefnuna. Þar mun hún kynna ný markmið Íslands í loftslagsmálum.Ákveðið hefur verið að stefna að 55 prósenta samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 í samfloti með Noregi og ESB. Þá verða aðgerðir efldar í kolefnisbindingu og landnotkun til að ná markmiði Íslands um kolefnishlutleysi 2040 og áfangamarkmiði um kolefnishlutleysi losunar á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda í kringum 2030. Ennfremur verður áhersla á loftslagstengd þróunarverkefni aukin.