Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vill eyða óvissu um uppgreiðslugjöld sem fyrst

11.12.2020 - 18:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir mikilvægt fyrir bæði lántakendur og ríkissjóð að eyða sem fyrst þeirri óvissu sem ríkir um lögmæti uppgreiðslugjalda Íbúðalánasjóðs. Þess vegna hafi stjórnvöld ákveðið að reyna að skjóta málinu fram hjá Landsrétti og beint til Hæstaréttar.

 

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að ákvæði í lánasamningum Íbúðalánsjóðs um uppgreiðslugjald hefðu verið ólögmæt. Málið gæti haft fordæmisgildi fyrir 8.500 lántakendur sem voru með þetta ákvæði í sínum lánasamningi.

Ríkið hefur ákveðið áfrýja málinu. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra upplýsti á Alþingi í gær að ætlunin væri að fara fram hjá Landsrétti og beint til Hæstaréttar til að fá niðurstöðu í málið sem fyrst.

„Við viljum reyna á þennan mögulega vegna þess að það eru svo margir sem eiga svo mikið undir í þessu máli. Við erum þeirrar skoðunar að það sé ekki annað hægt en að skjóta málinu á efra dómstig og vonumst til að það sé hægt að fá málið tekið fyrir í Hæstarétti án viðkomu í Landsrétti. Það myndi tryggja að við fengjum endanlega niðurstöðu í þetta mál miklu fyrr sem er það sem við þurfum. Og ég veit það að öll þau heimili sem eiga undir vilja fá niðurstöðu í þetta mál sem fyrst líka,“ segir Bjarni.

Bjarni segir að það hafi það ekki komið til greina að sættast einfaldlega á niðurstöðu héraðsdóms.

„Það eru slík álitamál uppi hérna og slíkar fjárhæðir að það er ekki annað forsvaranlegt. Ríikið getur ekki ákveðið sí svona að greiða út segjum í þessu máli 8 milljarða og setja ýmislegt annað í uppnám án þess að það sé búið að ganga úr skugga um að það sé lagalega hin endanlega niðurstaða. Hún fæst í raun og veru ekki nema á efsta dómstigi,“ segir Bjarni. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV