Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Svikarar reyna að féfletta fólk gegnum greiðslukort

11.12.2020 - 15:17
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV/Landinn
Talsvert hefur verið um það undanfarið að fólki berist fölsk skilaboð send í nafni póstflutningafyrirtækja og efnisveita. Með skilaboðunum er fólki beint inn á netsíður og beðið um að gefa upp kortaupplýsingar og öryggisnúmer til að greiða reikninga.

Því næst berast smáskilaboð í síma þar sem beðið er um að aðgerðin verði staðfest. Geri fólk það hefur það afhent tölvuþrjótum kóðann og staðfest heimild fyrir allt öðrum viðskiptum en lagt var upp með.

Í fréttatilkynningu frá Samtökum fjármálafyrirtækja kemur fram að hættan á tjóni sé mikil því fjárhæðirnar sem svikararnir færi af kortum séu iðulega hærri en fram kemur á falsaða reikningnum.

Fólk er því hvatt til að lesa alla tölvupósta í tengslum við netverslun og smáskilaboð af kostgæfni. Aldrei skyldi nokkur gefa kortaupplýsingar nema að vel athuguðu máli og tilkynna þegar til viðskiptabanka síns berist óvæntar tilkynningar um slíkt athæfi sem að framan greinir.