Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fólk fari varlega til að forðast einangrun um jólin

11.12.2020 - 18:33
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
„Þeir sem fara að skemmta sér um helgina eða eru mikið á ferðinni, það er fólkið sem á í hættu að missa af jólunum, verða í sóttkví eða í einangrun,“ segir Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við fréttastofu. Almannavarnir óttast að fólk gleymi sér á aðventunni og hitti of marga.

Einföld skilaboð: hópamyndun í lágmarki

Aðspurður um jólakúlur segir Rögnvaldur að jólakúlur fólks eigi ekki að skarast, og ef þær þurfi að skarast, til dæmis ef fólk á stóra nána fjölskyldu, sé mikilvægt að láta tíma líða á milli þess sem hóparnir skarast. Það væri til dæmis ráð að hitta einn hópinn um jól og hinn um áramót. Skilaboðin séu einföld: hópamyndun eigi að vera í lágmarki til að rjúfa smitkeðjuna og koma í veg fyrir að smit berist hratt á milli. 

Fólk fari varlega til að geta haldið jól heima

Alls dvelja nú 56 í farsóttarhúsinu á Rauðarárstíg og Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhússins, segir að þar fjölgi hratt þessa dagana. „Nú fer hver að verða síðastur til að sleppa fyrir jól. Núna þurfum  við öll að passa okkur virkilega vel, þannig að þótt að veitingastaðir séu opnir klukkutíma lengur, þá þurfum við öll að fara varlega ef við viljum halda gleðileg jól heima,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Aðspurður segir hann að enn gæti átt eftir að bætast í hóp þeirra sem koma í farsóttarhúsið vegna klasasýkingarinnar í Hafnarfirði sem fjallað var um í morgun. Þangað hafi tólf manns verið fluttir í gær vegna hennar, fullorðnir og börn. Starfsmenn hússins reyni eftir bestu getu að tryggja að fjölskyldur geti dvalið saman.