Allir forsetar síðustu 90 ára verið „Maður ársins“
Edward Felsenthal, aðalritstjóri og framkvæmdastjóri Time, segir blaðið alltaf hafa átt í sérstöku sambandi við forsetaembættið og að allir Bandaríkjaforsetar, frá og með Franklin D. Roosevelt, hafi verið útnefndir maður eða persóna ársins hjá Time einhvern tímann á sinni valdatíð.
Biden og Harris marka tímamót
Þetta sé hins vegar í fyrsta skiptið sem blaðið sæmi hvortveggja (verðandi) forseta og varaforseta þessari nafnbót í sameiningu. Þau Biden og Harris standi enda fyrir tímamótaviðburð í sögu forsetaembættisins, þar sem Harris sé fyrsta konan til að gegna embætti varaforseta.
Valið á persónu ársins, segir Felsenthal, snýst ekki einungis um árið sem er senn að baki, heldur líka og ekki síður um það sem framundan er. Næstu fjögur ár mun reyna mjög á þau Biden og Harris og þá muni sýna sig, hvort þeim takist að standa við loforð sitt um að sameina bandarísku þjóðina.
Ekki verið að velja „besta mann ársins“
Val Time á persónu ársins - eða manni ársins eins og það hét til skamms tíma - hefur oft verið umdeilt og hefur fólk furðað sig á því, að menn á borð við Adolf Hitler og Jósef Stalín hafi hlotið þessa upphefð.
Ritstjórn Times hefur hins vegar ætíð lagt á það áherslu, að markmiðið sé ekki að velja fólk eða félagskap sem hafi gert mest fyrir mannkynið eða á annan hátt skarað fram úr á jákvæðan hátt, heldur einfaldlega fólk eða fyrirbæri sem mest áhrif hefur haft á gang heimsmálanna á líðandi ári, til góðs eða ills.
Valið stóð á endanum milli fjögurra aðila
Fjölmörg voru tilnefnd í ár sem endranær, en að lokum stóð valið á milli fjögurra aðila; þeirra Biden og Harris, smitsjúkdómasérfræðingsins Anthonys Faucis og heilbrigðisstarfsfólks, Black lives matter og annarra barátturhreyfinga gegn kynþáttahyggju og Donalds Trumps.
Hér má horfa á umfjöllun um og viðtöl við persónur ársins á vef tímaritsins Time.