Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Átta smit í búsetuúrræði fyrir umsækjendur um vernd

11.12.2020 - 10:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Átta ný kórónuveirusmit eru rakin til klasasýkingar í búsetuúrræði á vegum félagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar fyrir fjölskyldur sem hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Þetta staðfestir Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við fréttastofu.

Mbl.is greindi frá því í gær að klasasýking hefði komið upp á höfuðborgarsvæðinu. Nú er ljóst að smitin eru rakin til búsetuúrræðis í Hafnarfirði fyrir fjölskyldur sem hafa sótt um alþjóðlega vernd til Útlendingastofnunar. Sex smitanna greindust í gær og tvö dagana áður. Þau sem greindust í gær voru í sóttkví. Rögnvaldur segir að nokkur fjöldi fólks sé í sóttkví vegna smitanna en getur ekki staðfest hversu margir. Smitrakning sé enn í gangi.

Hinir smituðu hafa verið fluttir í farsóttarhús í Reykjavík í samvinnu við almannavarnir en Hafnarfjarðarbær veitir þjónustu þeim sem dvelja í sóttkví.

Alls greindust 12 kórónuveirusmit innanlands í gær og 11 þeirra sem greindust voru í sóttkví. 

Fyrirsögn hefur verið uppfærð. Áður sagði að húsnæðið væri búsetuúrræði Útlendingastofnunar en það er á vegum Hafnarfjarðarbæjar fyrir fólk sem hefur sótt um alþjóðlega vernd til Útlendingastofnunar.