Mynd: EPA-EFE - EPA

Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.
Amnesty sakar Asera og Armena um stríðsglæpi
11.12.2020 - 01:29
Alþjóðlegu mannréttindasamtökin Amnesty International segja stríðsglæpi hafa verið framda í átökum Asera og Armena um fjallahéraði Nagorno-Karabakh í haust. Aftökur hermanna og borgara án dóms og laga, pyntingar og misþyrmingar á stríðsföngum og svívirðing jarðneskra leifa fallinna hermanna er á meðal þeirra stríðsglæpa sem rannsóknir samtakanna hafa leitt í ljós.
Sérfræðingar Amnesty rýndu í 22 myndskeið, sem staðfest hefur verið með óyggjandi hætti að tekin voru upp á stríðssvæðinu. Í tilkynningu samtakanna segir að hermenn beggja stríðsaðila hafi sýnt af sér skelfilega grimmd og sýnt öllum reglum um stríðsrekstur fullkomna fyrirlitningu.
„Níðingsskapurinn og skorturinn á mannúð sem sjá má á upptökunum sýnir meðvitaðan ásetning um að valda fórnarlömbunum dauða, líkamstjóni og auðmýkingu,“ segir í tilkynningu samtakanna, sem hvetja stjórnvöld í báðum löndum til að hefja rannsókn á glæpum herja sinna í stríðinu.
Báðir stríðsaðilar hafa sakað hinn um stríðsglæpi en hvorugur hefur til þessa viljað kannast við slíkt í eigin ranni.