Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Vilja minni útgjöld til útlendinga og fækka flóttafólki

10.12.2020 - 10:51
Mynd með færslu
 Mynd: Miðflokkurinn
Miðflokkurinn vill að dómsmálaráðherra breyti lögum um útlendinga, minnki útgjöld til málaflokksins og stytti málsmeðferðartíma hælisleitenda. Flokkurinn segir umsóknum hælisleitenda hafa fjölgað hér á meðan þeim fækkar annarsstaðar. „Því skyldu menn fylgja reglunum ef Ísland auglýsir sig sem land sem lítur fram hjá þeim?” segir í greinargerðinni með frumvarpinu. Sterkt velferðarkerfi og opin landamæri fari ekki saman.

Ólafur Ísleifsson er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar. Þær yrðu gerðar með það að markmiði að „hemja útgjöld ríkissjóðs til málefna útlendinga og auka skilvirkni í málsmeðferð.” Þá er lögð áhersla á að tryggja að ekki líði lengri tími en tveir sólarhringar þar sem ákvörðun verði tekin um hvort umsóknir hælisleitenda sem hingað koma fái efnislega meðferð. Allir þingmenn Miðflokksins eru með Ólafi á tillögunni; Karl Gauti Hjaltason, Bergþór Ólason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birgir Þórarinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Þorsteinn Sæmundsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Páll Jónsson.

Hlutfallslega flestar umsóknir á Íslandi

Fram kemur í greinargerð tillögunnar að málefni flóttamanna og innflytjenda séu með stærstu málum sem heimurinn standi frammi fyrir. 

„Hælisumsóknum hefur fjölgað hratt á Íslandi á undanförnum árum á sama tíma og þeim hefur fækkað í mörgum nágrannalöndum. Nú er svo komið að hælisumsóknir eru hlutfallslega flestar á Íslandi af öllum Norðurlandaþjóðunum (þær eru meira að segja fleiri en í Svíþjóð). Í fyrra voru slíkar umsóknir, miðað við íbúafjölda, fimmfalt fleiri á Íslandi en í Danmörku og Noregi.”

Finnar komnir á kortið með slakari reglum

Þá segir jafnframt að með breytingum Finna á útlendingalögum hafi umsóknum hælisleitenda þar fjölgað. „Breytt lög og reglur, þ.m.t. auknir frestunarmöguleikar, höfðu komið Finnlandi á kortið hjá mönnum af misjöfnu sauðahúsi sem skipuleggja ferðir til Vesturlanda,” segir í greinargerðinni. 

Miðflokkurinn vekur sömuleiðis athygli á frumvarpi ríkisstjórnarinnar á síðasta þingi er varða málefni flóttafólks og segir að það hafi sem betur fer tekist að koma í veg fyrir afgreiðslu þess máls. 

„Með því hefði Íslandi verið tryggt heimsmet sem helsti áfangastaðurinn miðað við fólksfjölda (ef við höfum ekki náð því nú þegar). Þegar straumur flóttamanna og förufólks til Evrópu rauk upp úr öllu valdi árið 2015 eftir að landamæri Þýskalands voru opnuð jók ríkisstjórnin framlög til flóttamannamála verulega. Íslensk stjórnvöld verða að ná stjórn á aðgerðum landsins í flóttamanna- og innflytjendamálum ella heldur áfram keðjuverkun sem 350.000 manna ríki mun ekki ráða við.” 

Ísland auglýsi sig sem reglubrjót

Þá segir sömuleiðis að eftir að íslensk stjórnvöld hafi tekið að víkja frá Dyflinarreglugerðinni hafi Ísland fyrst orðið að áfangastað þeirra sem ekki eiga tilkall til alþjóðlegrar verndar. „Því skyldu menn fylgja reglunum ef Ísland auglýsir sig sem land sem lítur fram hjá þeim?” segir í greinargerðinni. 

Sterkt velferðarkerfi og opin landamæri fara ekki saman

Miðflokkurinn segir að á meðan allar Norðurlandaþjóðir, nema Ísland, keppist nú við að draga úr væntingum fólks um dvalarleyfi. „Ef við skerum okkur úr á þessu sviði meðal norrænu landanna verður ekki við neitt ráðið. Það hefur varla farið fram hjá fólki að þrátt fyrir að landið sé nánast lokað vegna heimsfaraldursins kemur hingað enn mikill fjöldi fólks sem telur Ísland vænlegasta kostinn fyrir hælisumsókn.” 

Þá segir í greinargerðinni að málsmeðferð hafi reynst þung í vöfum og afgreiðslutími umsókna er of langur og kostnaðarsamur. „Miðflokkurinn telur að ekki verði við unað og að taka þurfi ákvarðanir um breytingar á lögum um útlendinga.”

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV