Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Sekta Google og Amazon vegna vafrakaka

10.12.2020 - 08:42
epa06898241 (FILE) - A general exterior view of the new Amazon Logistic and Fulfillment Center in Dortmund, Germany, 14 November 2017 (re-issued 19 July 2018). Reports on 19 July 2018 state Amazon crossed the 900 billion USD line on 18 July after its
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Franska persónuverndareftirlitið hefur sektað bandarísku tæknirisana Google og Amazon um samtalst 135 milljónir evra vegna notkunar á vafrakökum (e. cookies) í auglýsingaskyni.

Að mati persónuverndareftirlitsins CNIL brutu tvö fyrirtæki í eigu Google og eitt fyrirtæki í eigu Amazon á löggjöf um persónuvernd með því að koma fyrir vafrakökum á tölvum notenda án þess að afla fyrir því samþykki þeirra eða veita nægjanlega greinargóðar upplýsingar um notkun þeirra.

Google var sektað um samtals 100 milljónir evra, rúma 15,3 milljarða króna og Amazon um 35 milljónir evra, rúma 5,3 milljarða króna.

Um vafrakökur segir Snorri Agnarsson, prófessor í tölvunarfræði við Háskóla Ísland á Vísindavefnum að þær séu „upplýsingapakkar, sem vafraforrit vista á notendatölvum að beiðni vefþjóna. Þegar vafrinn seinna biður sama vefþjón um vefsíðu er kakan send til þjónsins með beiðninni. Vefþjónninn getur þá notað þessar upplýsingar frá vafranum til hvaða ákvarðanatöku eða vinnslu sem er. Oft eru lykilorð eða aðgangsheimildir einstaklings að tiltekinni vefþjónustu geymd á tölvu hans sem kökur.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Frakkar sekta Google. Í desember í fyrra sektaði samkeppniseftirlit landsins fyrirtækið um 150 milljónir evra, um 21 milljarð króna á þáverandi gengi, fyrir brot á samkeppnislögum. Í september sama ár samþykktu forsvarsmenn Google að greiða Frökkum hátt í einn milljarð evra gegn því að rannsókn yrði hætt á fjársvikamáli, sem staðið hafði í fjögur ár.