
Samþykktu lög til höfuðs trúarofstæki
Tekist á um hvort lögin gangi of langt og mismuni múslímum
Gagnrýnendur, jafnt innan Frakklands sem utan, segja frumvarpið ganga of langt og beinlínis skerða trúfrelsi fólks. Jean Castex, forsætisráðherra, segir lögunum hins vegar ætlað að vernda alla og forða ungum múslímum frá því að lenda í klóm öfgamanna. Castex fullyrðir að lögin beinist „ekki gegn trúarbrögðum almennt eða trúarbrögðum múslíma sérstaklega.“
Viðbrögð við morði á menntaskólakennara
Í frumvarpinu, sem sagt er lagt fram til að „styrkja lýðræðisleg grunngildi“ Frakklands, er meðal annars kveðið á um hertar reglur og viðurlög við hatursorðræðu og bann við því að dreifa persónuupplýsingum um einstaklinga af illum hug.
Í frétt BBC segir að þetta séu bein viðbrögð við morðinu á kennaranum Samuel Paty í október síðastliðnum. Kornungur maður réðist að Paty og myrti hann á hrottalegan hátt eftir að hann hafði notað skopmyndir af Múhameð spámanni sem kennslugögn í námskeiði um tjáningarfrelsi. Rannsókn þess máls leiddi í ljós að níð- og hatursherferð hafði verið rekin gegn Paty á netinu í aðdraganda illvirkisins.
Gegn leyniskólum, fjölkvæni, trúartáknum í opinberum störfum og fleiru
Lögin banna líka „leynilega“ skóla þar sem hugmyndafræði öfga-íslamista er haldið að nemendum, skilyrði fyrir því að taka börn úr almennum skólum og hefja heimakennslu eru hert. Fjölkvæni er þegar bannað í Frakklandi og til að draga enn úr líkum á broti gegn þeim lögum fær enginn fjölkvænismaður dvalarleyfi í Frakklandi, nái lögin fram að ganga.
Læknar sem verða uppvísir að því að kanna hvort stúlkur séu óspjallaðar meyjar geta átt von á sektum og jafnvel sviptingu læknaleyfis og reglur sem meina opinberum starfsmönnum að skarta trúartáknum við störf sín munu ná til fleiri starfsgreina en fyrr, þar á meðal fólks sem starfar við almenningssamgöngur og í sundlaugum.
Þá hafa reglur um fjárhagslegt gagnsæi múslímasöfnuða verið hertar og þeim gert að undirgangast veraldleg og lýðræðisleg gildi Frakklands með formlegum hætti, vilji þau fá styrki úr sjóðum hins opinbera.