Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óvíst um framgang frumvarps um Hálendisþjóðgarð

Mynd: Einar Rafnsson / RÚV
Óhætt er að segja að skoðanir séu skiptar um stjórnarfrumvarp um Hálendisþjóðgarð og tæplega hægt að halda því  fram að eining sé um frumvarpið innan stjórnarliðsins. Innan þingliðs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru miklar efasemdir um efni þess.

Löng leið fyrir höndum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra mælti fyrir frumvarpinu 8. desember. 1. umræða stóð í tæpa níu klukkutíma og var vísað til  umhverfis- og samgöngunefndar. Það á greinilega langa leið fyrir höndum. Af umræðum á Alþingi í vikunni að dæma gæti það orðið þrautin þyngri fyrir umhverfisráðherra, sem lagt hefur mikla áherslu á þetta mál,  að ná Hálendisþjóðgarðsfrumvarpinu í gegn fyrir þinglok og þingkosningar næsta haust. Spegillinn fjallar um málið. 

Ótti um að hagsmunir sveitarfélaga verði ekki tryggðir

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá því í nóvember 2017 er kveðið á um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands og frumvarp þess efnis var lagt fram á Alþingi þann 1. desember, þremur árum eftir undirritun stjórnarsáttmálans. Drög að frumvarpinu voru kynnt í byrjun ársins og þá urðu líflegar umræður í þjóðfélaginu um málið. Guðmundur Ingi boðaði meðal annars til íbúafunda í sveitarfélögum sem liggja að fyrirhuguðum þjóðgarði og kom þá fljótlega í ljós að sveitarstjórnarfólk óttaðist að hagsmunir sinna sveitarfélaga yrðu ekki nægilega tryggðir, t.a.m. í skipulags- og nýtingarmálum.

Nær yfir 30% af landinu

Breytingar voru gerðar á frumvarpinu eftir þessa gagnrýni og eftir umsagnir ýmissa í samráðsgátt. Í tilkynningu umhverfis- og  auðlindaráðuneytisins segir að á miðhálendi Íslands séu ein stærstu óbyggðu víðerni Evrópu og innan þess eru ómetanlegar náttúru- og menningarminjar. „Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þjóðlendur í sameign þjóðarinnar innan miðhálendislínu verði gerðar að þjóðgarði. Gert er ráð fyrir að Hálendisþjóðgarður nái yfir um 30% af Íslandi, en um helmingur svæðisins nýtur nú þegar verndar. Má þar nefna Vatnajökulsþjóðgarð, Hofsjökul og Þjórsárver, Kerlingarfjöll, Landmannalaugar og Hveravelli. 

Rannsóknir hafa sýnt fram á ótvíræð jákvæð efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða, bæði á þjóðarbúið og nærumhverfi svæðanna. Reynsla af starfsemi núverandi þjóðgarða staðfestir það. Stofnun Hálendisþjóðgarðs er þannig talin hafa jákvæð áhrif á byggðaþróun á þeim svæðum sem þjóðgarðurinn tæki til og geta skapað atvinnutækifæri, bæði heima í héraði og á landsvísu, verði frumvarpið að lögum" segir í tilkynningu ráðuneytisins. 

Skilgreindu mörk þjóðgarðsins

Þar segir enn fremur að undirbúningur vegna málsins hafi staðið yfir undanfarin ár og var m.a. nefnd þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi, ásamt fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, falið að skilgreina mörk þjóðgarðsins og setja fram áherslur um skiptingu landsvæða innan hans í verndarflokka. Nefndin skilaði skýrslu sinni um málið í lok síðasta árs og var frumvarp um Hálendisþjóðgarð kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í desember 2019. Í tilkynningunni segir að frá þeim tíma hafi ráðherra átt víðtækt samráð og samtal um frumvarpið, m.a. með fulltrúum þeirra sveitarstjórna sem eiga land að miðhálendinu. 

Virkjanir á jaðarsvæði

„Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að núverandi virkjanasvæði á miðhálendinu verði skilgreind sem jaðarsvæði á þjóðlendum innan miðhálendislínu og er lagt til að þau verði ekki friðlýst sem hluti Hálendisþjóðgarðs. Þá er lögð áhersla á að stjórnun Hálendisþjóðgarðs, sem verði sérstök stofnun með stjórn, sé bæði hjá ríki og sveitarfélögum og að svæðinu verði skipt í sex rekstrarsvæði" segir í tilkynningunni. 

Stærsta framlag okkar til náttúruverndar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra sagði þegar hann mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi í vikunni að hann hafi lagt sig fram við að hlusta vel á öll þau sjónarmið sem komið hafa fram og að ná sem víðtækastri sátt og skilningi um málið.  „Ólíkt núgildandi lögum um Vatnajökulsþjóðgarð þá er ekki gert ráð fyrir í frumvarpinu að einstaka sveitarstjórnir séu bundnar af efni stjórnunar- og verndaráætlunar þjóðgarðsins við gerð skipulagsáætlana sinna fyrir landsvæði innan Hálendisþjóðgarðs. Þannig hefur kröfum sveitarfélaganna varðandi skipulagsábyrgðina verið mætt.

Hálendisþjóðgarður yrði án efa stærsta framlag Íslendinga til náttúruverndar í heiminum hingað til og myndi styrkja ímynd landsins á erlendri grundu. Þetta tækifæri skulum við ekki láta okkur úr greipum renna" sagði Guðmundur Ingi. 

Hraðinn á málinu fordæmalaus

En það voru ekki allir á því að ráðherra hefði lagt sig fram um samráð og að ná sem víðtækastri sátt  um málið. Stjórnarþingmenn bæði úr Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki töluðu á slíkum nótum að afar ólíklegt má telja að þeir samþykki frumvarpið óbreytt.  Jón Gunnarsson Sjálfstæðisflokki,  fyrrverandi samgönguráðherra og 1. varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar sagði á Alþingi að  hraði málsins og aðferðafræði við ákvörðunartöku á vegum hins opinbera væri fordæmalaus.

 „Í svona stóru máli að þá er hún fordæmalaus. Í raun og veru er það alveg galið að við skulum láta okkur detta í hug að við getum snýtt þessu út á þessum skamma tíma sem áður hefur aldrei hlotið fullnaðar afgreiðslu af hálfu Alþingis. Mögulega er hugmyndin ekki góð.  Ég held reyndar að hún sé góð. Ég er mjög hrifinn af því að fara þarna í eitthvert samspil. En á meðan við höfum ekki greint ókostina, við höfum ekki greint áhrif á aðra hagsmuni. Á meðan þessi greining hefur ekki farið fram, heldur bara algjörlega einhliða greining þá getum við ekki svarað þessari spurningu" sagði Jón Gunnarsson.