Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Noregur valtaði yfir heimsmeistarana

Mynd: EPA-EFE / RITZAU SCANPIX

Noregur valtaði yfir heimsmeistarana

10.12.2020 - 21:10
Noregur átti ekki í neinum vandræðum með Holland, ríkjandi heimsmeistara þegar liðin mættust í milliriðlakeppni EM kvenna í handbolta í kvöld. Noregur vann öruggan sjö marka sigur, 32-25.

Noregur hafði unnið alla leiki sína í riðlakeppninni frekar örugglega, á meðan Holland rétt skreið áfram úr riðlakeppninni með því að vinna Ungverja í lokaleik sínum þar. Þrátt fyrir að Holland sé heimsmeistari spilar liðið án Estevönu Polman, eins síns besta leikmanns sem er meidd og missir af EM.

Noregur er svosem líka án sterkra leikmanna, en það kemur ekki að sök þar sem norska liðið er ótrúlega vel skipað. Nora Mörk sem missti af HM í fyrra er til dæmis í miklu stuði á EM. Hún kom Noregi sex mörkum yfir eftir rúmlega 20 mínútna leik í kvöld í 12-6. Þar með var grunnurinn eiginlega lagður að norskum sigri.

Hin fertuga Katrine Lunde í marki Noregs varði ekki skot fyrsta korterið, en eftir það hrökk hún í gang og lokaði rammanum. Lunde varði 11 skot á þeim 47 mínútum sem hún spilaði og var með 41% markvörslu, sem er eiginlega vaninn hjá henni.

Norska liðið komst mest ellefu mörkum yfir í leiknum. Síðustu mínúturnar gat Þórir Hergeirsson hvílt lykilmenn í sínu liði. Noregur vann að lokum sjö marka sigur, 32-25. Nora Mörk endaði markahæst með 8 mörk og var valin maður leiksins. Noregur er með fullt hús stiga í milliriðlinum og þarf væntanlega aðeins einn sigur í viðbót til að tryggja sér sæti í undanúrslitum EM.