Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Niðurstaða um uppgreiðslugjald mögulega á næsta ári

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Endanleg niðurstaða um lögmæti uppgreiðslugjalds Íbúðalánasjóðs gæti legið fyrir á fyrri hluta næsta árs, ef málinu verður áfrýjað beint í Hæstaréttar, eins og fjármálaráðherra vill, segir lögmaðurinn sem sótti málið. Annars þyrfti að bíða í tvö til þrjú ár. 

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi uppgreiðslugjald sem Íbúðalánasjóður lagði á lán á árunum 2005 til 2013 ólöglegt, en í umræddu máli var gjaldið 16% af uppgreiðsluverðmæti lánsins. Ljóst er að málið nær til 8.500 lántakenda og snýst um háar fjárhæðir. Fjármálaráðuneytið tilkynnti í fyrradag að málinu yrði áfrýjað til Landsréttar. Fjármálaráðherra vill hraða málinu enn frekar.

„Það sem við ætlum að gera í þessu máli er að við ætlum að reyna að fara eins skjóta leið og hægt er í gegnum dómskerfið og við munum láta reyna á sérstaka heimild í lögunum til þess að óska eftir beinni meðferð fyrir Hæstarétti fram hjá Landsrétti, til þess að málsmeðferðartíminn verði sem allra stystur.“

Lögmaðurinn sem fór með málið sem vannst í héraðsdómi segir að áfrýjun hafi ekki komið á óvart miðað við mikla hagsmuni og hann fagnar að málinu verði hraðað.

„Ég tel að það hljóti að teljast jákvætt, jákvæðar fréttir. Það gefur okkur von um að niðurstaða málsins skýrist fyrr en ella og málsmeðferðartími verði fyrir vikið skemmri,“ segir Þórir Skarphéðinsson lögmaður.

Að sögn hans tæki málið 2 til 3 ár eftir hefðbundinni leið, en fari það beint til Hæstaréttar megi vænta niðurstöðu á fyrri hluta næsta árs. Lán Íbúðalánasjóðs á þessu tímabili voru tvenns konar, annars vegar lán með uppgreiðslugjaldi sem báru 5,5% vexti og hins vegar lán án uppgreiðslugjalds sem báru 5,75% vexti. Þórir segir dóminn ekki snúast um vaxtakjör heldur uppgreiðslugjaldið. Vextir voru ekki hækkaðir á þá sem komust hjá gjaldinu, heldur lækkaðir á hina.

„Algjörlega. Þeir sem að tóku lán með uppgreiðslugjaldi fengu afslátt af vaxtaálagi.“

Í auglýsingu fjármálaráðuneytisins segir að verði ólögmæti uppgreiðslugjaldsins dæmt ólögmætt, muni fyrningarfrestur miðast við 4. desember, þegar héraðsdómur féll. Þórir segir það ekki skýra mikið því samkvæmt lögum geti fyrningarfrestur numið einu, fjórum eða tíu árum. 

„Á meðan svo er er staðan lögfræðilega óbreytt frá uppkvaðningu dómsins og ekki annað hægt en að ráðleggja lánþegum sem vilja tryggja rétt sinn að beina kröfum sínum til sjóðsins og eftir atvikum höfða mál til þess annars vegar að tryggja sig gagnvart fyrningu og að krafan verði vaxtaberandi.“