Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Magnaður seinni hálfleikur Spánverja dugði ekki til

Mynd: EPA-EFE / RITZAU SCANPIX

Magnaður seinni hálfleikur Spánverja dugði ekki til

10.12.2020 - 19:15
Seinni leikur dagsins í milliriðli eitt á EM kvenna í handbolta var viðureign Frakka og Spánverja. Eftir dapran fyrri hálfleik mætti spænska liðið til leiks í seinni hálfleik og mátti minnstu muna að liðið hefði stolið sigrinum. Allt kom þó fyrir ekki og Frakkar komu sér í góða stöðu í riðlinum.

Frakkar fóru með fjögur stig inn í milliriðilinn en Spánverjar einungis eitt stig, því var sigur fyrir Spánverja algjörlega nauðsynlegur ætlaði liðið sér að halda í vonina um að komast í undanúrslit mótsins.

Frakkar slökktu hins vegar fljótt þann neista hjá spænska liðinu með frábærum kafla á fyrstu tíu mínútum leiksins. Strax eftir 8. mínútna leik var staðan orðin 5-2 Frökkum í vil og spænska liðið heillum horfið. Seinni partur fyrri hálfleiks var svo sömuleiðis algjörlega í eigu Frakka og Gracé Zaadi kom liðinu sex mörkum yfir í stöðunni 16-10 og þannig var staðan í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var algjörlega svart og hvítt hjá Spánverjum, liðið gerði færri mistök sóknarlega og innkoma Silviu Navarro í markið hjálpaði sömuleiðis mikið til. Eftir að Alexandra Lacrabere kom Frökkum 6 mörkum yfir á 42. mínútu leiksins var komið að Spánverjum. Liðið vann Jafnt og þétt niður mun Frakkanna og þegar tíu mínútur voru eftir tókst Mörtu Lopez að minnka muninn niður í eitt mark 21-20. Spánverjum tókst þó aldrei að jafna leikinn og eftir æsispennandi lokamínútur þá voru það Frakkar sem höfðu betur en tæpara mátti það þó ekki vera. Frakkar unnu að lokum eins marks sigur þrátt fyrir frábæra endurkomu Spánverja, lokatölur 26-25.