Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Loftgæði á Íslandi mikil nema á Grensásvegi

10.12.2020 - 09:39
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Sigurðsson - RÚV
Loftgæði á Íslandi eru nokkuð mikil og hafa farið batnandi undanfarin ár samkvæmt nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar um loftgæði til loka síðasta árs. Eini staðurinn þar sem mengun mældist yfir heilsuverndarmörkum oftar en leyfilegt er var Grensásvegur í Reykjavík.

Þetta er í þriðja skiptið sem Umhverfisstofnun gefur út skýrslu um loftgæði. Styrkur svifryks, brennisteinsdíoxíðs og brennisteinsvetnis var innan leyfilegs fjölda skipta yfir heilsuverndarmörkum á öllum mældum stöðum á landinu árið 2019. Umhverfisstofnun mælir loftgæði víða um land og nálgast má upplýsingar um stöðu loftgæða á vefsíðunni Loftgæði.is.

Samkvæmt sjöttu grein reglugerðar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um loftgæði geta Hollustuvernd ríkisins eða viðkomandi heilbrigðisnefnd gert ráðstafanir til að draga úr loftmengun og umhverfismörkin virt. Meðal þeirra aðgerða sem þeim er heimilt að grípa til eru lokanir á götum, takmörkun starfsemi á ákveðnum svæðum til skemmri tíma.

Eina efnið sem fór yfir leyfilegan fjölda skipta yfir heilsuverndarmörkum í fyrra var köfnunarefnisdíoxíð (NO2) og var það á Grensásvegi. Þar fór styrkur efnisins ellefu sinnum yfir leyfileg mörk fyrir sólarhringsmeðaltal efnisins. Einungis er leyfilegt að fara sjö sinnum yfir sólarhringsmörk á ári hverju. Þetta er þriðja árið í röð þar sem NO2 fer yfir heilsuverndarmörk þar oftar en leyfilegt er.

Svifryksmengun aldrei yfir leyfilegum mörkum

Á Akureyri hafa loftgæði batnað miðað við fyrir þremur árum síðan en engu að síður voru fleiri tilfelli í fyrra þar sem mengun fór yfir heilsuverndarmörk en árið þar áður. Alls gerðist það 39 sinnum árið 2017, 19 sinnum 2018 og 22 sinnum í fyrra. Leyfilegt er að fara 35 sinnum yfir sólarhringsmörk svifryks ár hvert.

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Svifryksmengun í Kópavogi.

Árið 2019 var gróft svifryk undir öllum heilsuverndarmörkum fyrir ársmeðaltal á þeim stöðum sem efnið var mælt. Ársmeðaltal var hæst á Grensásvegi og lægst við Húsavík.

Brennisteinsdíoxíð einu sinni yfir mörk

Árið 2019 var brennisteinsdíoxíð (SO2) undir öllum heilsuverndarmörkum fyrir ársmeðaltal á þeim stöðum sem það var mælt. Einungis fór magn efnisins einu sinni yfir heilsuverndarmörk á Gröf við Grundartanga. Mest magn mældist í nálægð við iðnaðarstarfsemi.

Brennisteinsvetni minnst á Grundartanga

Árið 2019 var brennisteinsvetni (H2S) undir öllum heilsuverndarmörkum fyrir ársmeðaltal á þeim stöðum sem efnið var mælt. Það mældist mest í Norðlingaholti í Reykjavík, Lækjarbotnum í Kópavogi, Hveragerði og Reykjahlíð á Mývatni. Minnst mældist á Gröf við Grundartanga.

Köfnunarefnisdíoxíð mest á Grensásvegi

Köfnunarefnisdíoxíð (NO2) árið 2019 var undir heilsuverndarmörkum fyrir ársmeðaltal efnisins á öllum þeim stöðum sem efnið var mælt. Ársmeðaltal NO2 var hæst á Grensásvegi og lægst á Grundartanga og Húsavík. Styrkur NO2 fór 11 sinnum yfir heilsuverndarmörk fyrir sólarhringsmeðaltal á Grensásvegi. Ástæðuna mátti alltaf rekja til umferðar en helsta uppspretta NO2 á höfuðborgarsvæðinu er útblástur bíla.