Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hjúkrunarrými verði í húsnæði sem þegar hefur risið

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Gert er ráð fyrir að opna níutíu ný hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári. Það er sami fjöldi og nú bíður á Landspítalanum eftir að komast á hjúkrunarrými. Gert er ráð fyrir 1.350 milljónum í fjárlögum í hjúkrunarrýmin. Önnur umræða um fjárlögin stendur yfir á Alþingi. Forstjóri Sjúkratrygginga segir að rýmin þurfi að vera í húsnæði sem þegar er búið að byggja.

Miðað við þær framkvæmdir sem núna er unnið að fjölgar hjúkrunarrýmum ekki að ráði fyrr en á árunum 2023 – 2025. Þessu vill heilbrigðisráðherra breyta og greindi frá því á vef ráðuneytisins í dag að stefnt væri að því á næsta ári að auka fjárframlög til hjúkrunarrýma um rúmar sautján hundruð milljónir króna. Þar af á að verja þrettán hundruð og fimmtíu milljónum í að fjölga hjúkrunarrýmum um allt að níutíu. Vonast er til að Sjúkratryggingar geti auglýst eftir húsnæði og rekstraraðilum fljótlega eftir áramót, segir á vef ráðuneytisins.

„Já, við förum í þennan undirbúning um leið og búið er að samþykkja fjárlög þar sem þessir peningar koma væntanlega inn. Þannig að þetta ætti að geta komist í notkun á næsta ári, jafnvel fyrri hluta árs. Eins og stjórnvöld leggja þetta upp þá er ætlast til þess að þetta verði tekið í notkun á næsta ári og það segir mér nú að þetta þurfi að vera í húsnæði sem er búið að byggja,“ segir María.

Stungið hefur verið upp á því að hótel og ónotað stórhýsi verði gert að hjúkrunarheimili.

„Það er ekkert útilokað fyrirfram en húsnæðið þarf auðvitað að uppfylla þær kröfur sem eru gerðar til hjúkrunarrýma. Það fjallar meðal annars um stærð herbergja, snyrtiaðstöðu, breiddina á göngum, svo hreyfihamlaðir geti komist auðveldlega um og það sé auðvelt að aðstoða fólk,“ segir María. Verði unnt að breyta einhverju af því húsnæði sem stungið hefur verið upp á, þannig að það uppfylli reglugerðir, þá komi það vel til greina.

Í lok síðasta árs biðu rúmlega fjögur hundruð eftir því að komast á hjúkrunarrými.

Landspítalinn fagnar fréttum af nýjum rýmum. Þar bíður níutíu og einn sjúklingur eftir því að útskrifast og komast á hjúkrunarheimili. Aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans segir áform ráðherra mikið fagnaðarefni fyrir þá sem hafa lokið meðferð og bíða eftir að komast í viðunandi úrræði. Þá myndi þetta einnig breyta miklu fyrir rekstur spítalans og þjónustu við þá sem þurfa að leggjast inn á spítalann en hafa ekki getað.