Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Geimflaug SpaceX sprakk í lendingu

10.12.2020 - 05:23
Frumgerð Starship-geimflaugar SpaceX sprakk í lendingu, eftir vel heppnað tilraunaflug, þann 9.12. 2020. Flaugum sem þessari er ætlað að flytja fólk og búnað til Mars og Tunglsins.
Starship-flaugar SpaceX lenda lóðrétt, rétt eins og Falcon-flaugar fyrirtækisins. Þessi kom þó of hratt og harkalega niður og sprakk því í lendingu. Mynd: AP
Frumgerð Starship-geimflaugar bandaríska geimferðafyrirtækisins SpaceX sprakk í loft upp og brann til kaldra kola í lendingu í Texas í gær, eftir að öðru leyti vel heppnað tilraunaflug. Geimflaugin var mannlaus og Elon Musk, stofnandi og aðaleigandi SpaceX, sagðist ánægður með tilraunaskotið þrátt fyrir brotlendinguna, enda hefðu öll þau gögn sem afla átti borist með skilum.

„Mars, hér komum við!“ skrifaði Musk á Twitter, borubrattur, og útskýrði að of lítill þrýstingur í eldsneytisgeymi flaugarinnar hafi valdið því að hún hafi farið of hratt í lendingunni. Starship-flaugunum er ætlað að flytja bæði fólk og farm til Mars og tunglsins innan fárra ára.