Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ætla að fjölga hjúkrunarrýmum um 90 á næsta ári

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Auka á framlög til hjúkrunarrýma um rúmlega 1,7 milljarða króna á fjárlögum næsta árs. Stærstur hluti fjármagnsins mun fara í að fjölga hjúkrunarrýmum um allt að 90 á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári og þá verður hluta þess varið til að auka rekstrarframlög til hjúkrunarheimila í samræmi við aukna hjúkrunarþyngd íbúa þeirra.

Stefnt er að því að bjóða út húsnæði og rekstur nýrra rýma fljótlega eftir áramót.

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að í fjárlögum næsta árs sé gert ráð fyrir að framlög til hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu verði aukin um 1.715 milljónir króna. Af þeirri fjárhæð verði 1.350 milljónum króna varið til fjölgunar hjúkrunarrýma.

Aukningin er varanleg og er ætlað að standa undir umtalsverðri fjölgun hjúkrunarrýma strax á næsta ári. „Þörf fyrir fleiri hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu er brýn en að óbreyttu, miðað við þær framkvæmdir sem unnið er að, fjölgar þeim ekki að ráði fyrr en á árunum 2023 – 2025,“ segir í tilkynningunni. 

Þar er haft eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að fleiri hjúkrunarrými mæti ekki einungis brýnni þörf aldraðra fyrir þjónustu. Þetta sé einnig fallið til að styrkja heilbrigðiskerfið og stuðla að því að sjúklingar fái rétta þjónustu á réttum stað.