
Vilja að ríkið og Seðlabankinn styðji sveitarfélögin
Samkvæmt frétt blaðsins hafa sveitarfélögin átt í óformlegum viðræðum við Seðlabankann um að hann hlaupi undir bagga með þeim með kaupum á útistandandi skuldabréfum. Eigendur þeirra skuldabréfa sem Seðlabankinn keypti gætu síðan notað afrakstur sölunnar til að kaupa nýja skuldabréfaflokka af sveitarfélögunum.
Einnig er stungið upp á þeim möguleika að Seðlabankinn keypti nýja skuldabréfaflokka beint af sveitarfélgöunum, og sú þriðja fælist í því að Seðlabankinn keypti upp hluta af útgáfu Lánasjóðs sveitarfélaga, annað hvort beint af sjóðnum eða á markaði.
Ríki og seðlabankar „víðs vegar um heim“ styðja borgir og sveitarfélög
Haft er eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra að fulltrúar sveitarfélaganna hafi bent Seðlabankafólki á að ríkisstjórnir og seðlabankar hafi „verið að styðja mun ákveðnar við sveitarfélög og borgir víðs vegar um heim,“ svo sem í Bandaríkjunum og Svíþjóð, þar sem seðlabankar hafi verið að kaupa skuldabréf sveitarfélaga.
Þá segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, að Seðlabankinn eða ríkissjóður eigi að tryggja sveitarfélögum landsins sambærileg lánakjör og ríkið nýtur, „til dæmis með því að kaupa núverandi útgáfur þeirra sveitarfélaga sem eru með skuldabréf á markaði.“