Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Tókust á um hálendisþjóðgarð til miðnættis

09.12.2020 - 08:21
Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisstofnun
Tekist var á um frumvarp umhverfisráðherra um stofnun hálendisþjóðgarðar á Alþingi fram að miðnætti í gærkvöld. Sumir töldu ekki nóg gert til að tryggja orkuöryggi en aðrir of langt gengið í þá átt á kostnað náttúruverndar.

„En það veldur mér talsverðum áhyggjum að með þessu máli birtist sýn sem hefur verið að aukast ásmegin, festast í sessi, sérstaklega hjá hreyfingum á vinstri kantinum, sem felur það í sér að náttúran sé á einhvern hátt heilagt fyrirbæri og maðurinn sé þar aðskotahlutur,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði sinn flokk hafa sett fyrirvara við frumvarpið vegna orkuöryggis. „Já, það hafa margir haft áhyggjur af því að það sé ekki nægilega gengið frá því og loftlínur sem fyrir eru, fyrirhugaðir jarðstrengir og viðhald á núverandi flutningskerfi á hálendinu sé í forgangi. Þetta er atriði sem þarf að tryggja.“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði að ekki stæðist allt skoðun sem sagt hefði verið um frumvarpið. „Hér hefur því verið haldið fram að það sé verið að loka hálendinu, og ég spyr: Er verið að loka hálendinu með þessu frumvarpi? Nei, slíkar fullyrðingar eru beinlínis rangar. Markmiðin eru skýr um að auðvelda aðgengi fólks.“

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður utan flokka, fagnaði því að eitt helsta baráttumál umhverfisverndarsinna um áratugabil væri komið fram en lýsti áhyggjum af því að of miklar málamiðlanir hefðu verið gerðar, of margar virkjanir leyfðar innan hálendisþjóðgarðarins.