Raðir hafa myndast við skimunarstaði í Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu, undanfarna daga. Mynd: EPA-EFE - YNA
Nærri 670 greindust með kórónuveirusmit í Suður-Kóreu síðasta sólarhring, sem er næst mesti fjöldi á einum degi frá upphafi faraldursins þar í landi. Undanfarna viku hafa daglega greinst ríflega sex hundruð með kórónuveiruna í Suður-Kóreu.
Nýjar og hertar ráðstafanir til að reyna að hindra útbreiðslu veirunnar tóku gildi í gær og aukin áhersla verður lögð á skimun fyrir veirunni. Þá hafa stjórnvöld heimilað sjúkrahúsum að útskrifa suma sjúklinga fyrr til að skapa pláss fyrir sjúklinga með COVID-19.
Hátt í fjörutíu þúsund hafa greinst með kórónuveirusmit í Suður-Kóreu frá upphafi faraldursins, en 556 hafa þar dáið úr COVID-19. Stjórnvöld hafa samið við lyfjafyrirtæki um kaup á bóluefni fyrir 44 milljónir manna.