Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Skaðabótakröfur viðbúnar vegna COVID-reglna

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Lögmaður líkamsræktarstöðvanna World Class segir sóttvarnasjónarmið ekki hafa ráðið ákvörðun um aðgerðir sem taka gildi á miðnætti þar sem liðsmönnum íþróttafélaga verður heimilt að lyfa lóðum en líkamsræktarstöðvar verða að vera lokaðar. Fyrirtæki hjóti að ígrunda skaðabótamál vegna sóttvarnaaðgerða.

Kráareigendur, veitingahúsaeigendur og eigendur líkamsræktastöðva eru afar óánægðir með þær tilslakanir sem gerðar verða á miðnætti. Þá má opna sundlaugar að nýju, leikhús og fleira. Hins vegar þurfa kráareigendur áfram að hafa lokað sem og eigendur líkamsræktarstöðva. Fimmtán gestir mega vera á veitingastöðum. 

„Langflestir í þessu samfélaginu eru sáttir við það sem hefur verið gert og þann árangur sem hefur náðst. Það sem nú vekur spurningar er sú mismunun sem er gerð á milli, að því er manni finnst, sambærilegrar starfsemi um það hvaða kvaðir eru lagðar á,“ segir Gestur Jónsson, lögmaður World Class.

Samkvæmt tölum sem fréttastofu bárust frá sóttvarnayfirvöldum síðdegis í dag eru fimm kórónuveirusmit rakin beint til sundlauga en 36 til líkamsræktarstöðva. Inni í þessum tölum eru ekki þau rúmlega áttatíu smit sem rakin eru til hnefaleikastöðvar í Kópavogi.

Talsmaður fyrirtækja í veitingarekstri segir líklegt að mál verði höfðað á  hendur ríkinu vegna sóttvarnaaðgerða. Gestur segir slíkt hins vegar ekki í bígerð hvað lokun World Class varðar enda sé vonandi styttra eftir af faldrinum heldur en sá tími sem það tekur að reka dómsmál.

„Það er hins vegar mjög skrítið að vinir mínir í Val, meistaflokkurinn þar, geti verið að lyfta lóðum uppi á Hlíðarenda sér sjálfum til styrktar og hollustu, meðan öllum almenningi er bannað að gera það við aðstæður sem þó eru miklu betri á líkamsræktarstöðvunum. Það er augljóst að það er ekkert jafnræði þarna á milli. Það byggist ekki á sóttvarnarsjónarmiðum sem þarna er verið að taka ákvarðanir um,“ segir Gestur.

Hann segir að ef ráðherra ætli að taka ákvarðanir sem byggjast á öðrum sjónarmiðum verði að rökstyðja það. Hann nefnir sem dæmi að núna megi leikarar æfa verk gegn því að þeir séu með grímur. 

„En þegar kemur að sýningu fer grímuskyldan. Ef eitthvað er þá hlýtur sóttvarnasjónarmiðið að vega sterkara á sýningu þegar það eru komnir áhorfendur á staðinn heldur en er meðan engir áhorfendur eru á staðnum. Þannig að þetta byggist á öðru heldur en sóttvarnasjónarmiðum. Þá verða menn að gæta sín að gera jafnt fyrir þá sem eins stendur á um. Það virðist blasa við að starfsemi sem er á vegum ríkisins og sveitarfélaganna eða hjá aðilum eins og íþróttafélögum sem njóta styrkja frá þessum aðilum, þeir búa við miklu rýmri skilyrði heldur en einkafyrirtæki sem eru með til dæmis líkamsræktarstöðvarnar. Margir þeirra sem finnst nú á sér brotið, þeir hljóta að íhuga það hvort þeir geti gert kröfu um bætur fyrir það tjón sem hefur orðið vegna þessara ákvarðana,“ segir Gestur.