Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Miklir möguleikar í kaupum á húsnæði fyrir gestastofu

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson
Miklir möguleikar felast í kaupum ríkisins á húsnæði fyrir gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs við Mývatn, að mati sveitarstjóra Skútustaðahrepps. Sveitarfélagið vill opna þekkingar- og nýsköpunarsetur í sama húsi.

Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð er gert ráð fyrir gestastofum á fimm stöðum á landinu, meðal annars í Mývatnssveit. Það er nú eina svæðið þar sem engar framkvæmdir eru hafnar í þessu skyni. Fjármálaráðherra hefur óskað eftir heimild í fjáraukalögum til að kaupa húsnæði við Sútustaði sem síðast hýsti Hótel Gíg.

Mikil tækifæri til að auka verðmæti á svæðinu

Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, segir heimamenn við Mývatn sjá í þessu mikla möguleika, bæði varðandi frumkvöðla- og þekkingarstarf og starfsemi sveitarfélagsins. „Og með því að tengja saman þekkingarstofnanir og svo einkaaðila sem eru í nýsköpun, þá sjáum við fram á mikil tækifæri til þess að auka verðmæti á svæðinu. Auka þekkingu og í rauninni auka fjölbreytni í atvinnulífinu sem skiptir mjög miklu máli, ekki síst núna.“

Bygging á einstökum stað 

Sveitarfélagið á í viðræðum við ríkið um aðkomu að þessu og Sveinn segist bjartsýnn á að af þessu verði. Enda sé þörfin mikil fyrir þá aðstöðu sem þarna yrði til. „Og eins þá erum við að tala þarna um byggingu sem er fyrir hendi og í raun einstök staðsetning sem er ekki hægt að ná í lengur vegna verndunar Mývatns og Laxár. Og þá í rauninni slá margar flugur í einu höggi.“

25 milljónir í fjárhagsáætlun vegna verkefnisins

Í fjárhagsáætlun Skútustaðahrepps eru teknar frá 25 milljónir króna til að þróa þetta húsnæði í átt að þekkingar- og nýsköpunarsetri. Þetta segir Sveinn sýna vel hve mikil alvara býr þarna að baki. „Þetta hangir líka saman við margskonar stefnumótun hérna á svæðinu. Það er gerð nýsköpunarstefnu í gangi, síðan eru frumkvöðlafyrirtæki á borð við Mýsköpun sem að eru núna að horfa fram á talsverðan vöxt ef svo fer fram sem horfir. Þannig að við sjáum þetta í góðu samræmi við margt annað sem er að gerast á svæðinu.“