Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Íhuga að höfða mál út af sóttvarnaaðgerðum

09.12.2020 - 09:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eigendur líkamsræktarstöðva íhuga að höfða mál á hendur stjórnvöldum vegna sóttvarnaaðgerða. Líkamsræktarstöðvar hafa verið lokaðar frá því í byrjun októbermánaðar og fá ekki að opna fyrr en í fyrsta lagi 12. janúar samkvæmt reglugerð sem heilbrigðisráðherra kynnti í gær.

Eigendur líkamsræktarstöðva gagnrýna stjórnvöld fyrir samráðsleysi og telja að ekki hafi verið færð rök fyrir því að líkamsræktarstöðvar þurfi að vera lokaðar en á sama tíma sé hægt að opna sundlaugar og slaka á sóttvörnum í verslunum.

„Við erum búin að hafa samband við nokkra lögfræðinga og þeir eru allir á sama máli. Við erum að horfa á jafnræðisregluna og meðalhófsregluna þar sem stjórnvöld eiga að gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Okkur finnst það ekki vera gert t.d. með opnun sundlauga þar sem mega vera allt að 350 manns í sundi. Sama með meðalhófsregluna þar sem stjórnvöld mega bara taka íþyngjandi ákvarðanir þegar að lögmætu markmiði verður ekki náð með öðru vægara móti. Okkur finnst ansi hart að okkur vegið,“ sagði Jakobína Jónsdóttir einn af eigendum líkamsræktarstöðvarinnar Grandi 101 í morgunútvarpi Rásar 2.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að þessi ákvörðun hafi verið tekin í samræmi við tilmæli sóttvarnalæknis.

„Við teljum okkur hafa rökstutt þetta með tilvísun til almennrar þekkingar á smitleiðum í fyrsta lagi. Þetta snýst um það að reyna að stemma stigu við útbreiðslunni. Það er markmiðið með öllum okkar aðgerðum. Og síðan bara niðurstöðu smitrakninga og dæma um klasasmit og svo framvegis. Þannig að það eru í raun og veru rökin. Hins vegar þá hafa allir rétt á að sækja sinn rétt og færa fram sín sjónarmið,“ sagði Svandís í morgunútvarpi Rásar 2.