Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Boris flýgur til Brussel

09.12.2020 - 06:53
epa08190292 British Prime Minister Boris Johnson gestures as he delivers a speech on 'Unleashing Britain's Potential' at the Old Royal Naval College in London, Britain, 03 February 2020.  The United Kingdom officially left the EU on 31 January 2020, beginning an eleven month transition period with negotiations over a future trade deal.  EPA-EFE/Jason Alden / POOL
 Mynd: EPA
Forsætisráðherra Bretlands Boris Johnson flýgur til Brussel síðar í dag til fundar við Ursulu von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um samning er Bretland gengur endanlega úr sambandinu um áramótin.

Lítill tími er til stefnu til að komast að samkomulagi um hvernig útgöngu Breta verður háttað. Þrátt fyrir margar tilraunir og langa fundarsetu samninganefnda hefur enn ekki tekist að semja um hvernig viðskiptum og fleiri atriðum verður háttað eftir áramót. Talið er að enn beri mikið í milli, einkum um fiskveiðiréttindi, samkeppnisreglur og hvernig eftirlit með hugsanlegum samningi verður háttað.

Þau Johnson og von der Leyen funda yfir kvöldverði í höfuðborg Belgíu. Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC kemur Johnson til fundarins með lista yfir helstu kröfur Breta til samkomulagsins. Ef árangur næst á fundi þeirra tveggja er þó málið ekki í höfn, heldur einungis lagður grunnur að áframhaldandi viðræðum samninganefnda.

Leiðtogar 27 aðildarríkja ESB funda á morgun í Brussel. Samkvæmt heimildum BBC innan ESB hefur Michel Barnier, aðalsamningamaður sambandsins, greint ráðamönnum ríkja sambandsins að meiri líkur en minni séu á því að samningar takist ekki og því gangi Bretland endanlega úr ESB án samnings.