Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Um 1.000 sóttvarnabrot tilkynnt á höfuðborgarsvæðinu

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fengið hátt í 1.000 tilkynningar um möguleg brot á reglum um sóttkví og einangrun og brotum gegn sóttvörnum síðan kórónuveirufaraldurinn tók að breiðast út hér á landi. Um tíundi hluti þessara tilkynninga reyndist vera á rökum reistur og um 80% þeirra brotlegu eru karlar. Sex brot, þar sem COVID-smitað fólk fór ekki í einangrun, eru skráð hjá embættinu.

Þetta kemur fram í svari lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við fyrirspurn fréttastofu.

Þar kemur fram að frá því í mars hafi þangað borist 949 tilkynningar vegna gruns um möguleg brot gegn reglum um sóttkví og einangrun og brotum gegn sóttvörnum.  Á sama tíma hafa 45 brot gegn sóttkví og einangrun verið skráð. Þar af eru 24 grunaðir um brot á þeim skyldum sem fylgja því að vera í sóttkví, 15 eru grunaðir um að hafa ekki farið í sóttkví og sex eru grunaðir um að hafa ekki farið í einangrun þegar þeir höfðu greinst með COVID-19 smit.

Sjá einnig: Fjöldi tilkynninga um meint brot á sóttvarnareglum

Síðan í mars hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu skráð 63 brot gegn sóttvörnum. Í 40 tilvikum var um að ræða grun um að fleiri hefðu komið saman en reglugerð heilbrigðisráðherra kveður á um og í 23 tilvikum var um að ræða brot á reglum um lokun samkomustaða.

Meðalaldur þeirra sem eru grunaðir um brot á sóttvarnalögum er 40 ára. Karlar eru í miklum meirihluta grunaðra, eða 78%.