Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Segir litla upplýsingagjöf valda óvissu

Mynd: Rúv / Rúv
Skortur á upplýsingagjöf frá stjórnvöldum og sóttvarnayfirvöldum varðandi aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins veldur óvissu hjá fólki og fyrirtækjum. Þetta segir Davíð Þorláksson forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins. 

Davíð var gestur Morgunútvarps Rásar tvö í morgun og sagði þar að í mörgum löndum hefðu verið settar upp tímalínur þannig að almenningur ætti auðveldara með að átta sig á hvaða aðgerðir væru í vændum. Hann kallaði eftir því að svipuð nálgun yrði tekin upp hér á landi.

„Við gerum okkur grein fyrir að það verður mikil óvissa t.d. hvenær Evrópska lyfjastofnunin samþykkir lyfin, hvenær við fáum þau og svo framvegis,“ sagði Davíð í Morgunútvarpinu. „En menn hljóta að hafa einhverja grófa hugmynd um þetta, það hlýtur að vera hægt að setja upp einhverja líklega tímalínu.“

Davíð nefndi sem dæmi um þetta að nýjar takmarkanir ættu að taka gildi á morgun, en enginn vissi hvað fælist í þeim. „Það eru núna 25 þúsund manns atvinnulaus eða á hluta atvinnuleysisbótum. Það vill enginn bera ábyrgð á að ráða fólk aftur til starfa, ef menn eru ekki nokkuð vissir um að geta haldið þeim í vinnu,“ sagði Davíð.

Hann sagði að skref í þessa átt hafi verið stigin í gær með kynningu litakóðakerfisins. En þegar ekki væri hægt að gera áætlanir, þyrfti að draga upp mögulegar sviðsmyndir. „Þetta er ekki þannig að við séum í fulkominni óvissu. Lyfjastofnun á sinn fulltrúa hjá Evrópsku lyfjastofnuninni og við erum þátttakendur í þessu ferli. Einhvernveginn tekst öðrum löndum að búa til svona tímaáætlanir og áætla þetta með einhverjum hætti. Það er auðvitað háð óvissu og menn munu mögulega þurfa að aðlaga þetta seinna. Það væri líka hjálplegt fyrir andlega líðan margra að fá aðeins meiri vissu fyrir þessu.“