Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Óttast að hertar reglur hafi þveröfug áhrif á ungmenni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Claus Hjortdal formaður skólastjórafélags Danmerkur varar við því að hertar sóttvarnaraðgerðir í landinu geti haft þveröfug áhrif en ætlað er á ungt fólk. Fleira skólafólk tekur í sama streng.

Hann segist í samtali við DR óttast að fjöldi skólanemenda virð reglurnar að vettugi og komi saman í leyfisleysi utan skóla, sem valdi því að erfiðara verði að hafa taumhald á útbreiðslu veirunnar.

Hjortdal segir miklar líkur á að þegar nemendur hafi setið heima allan daginn við skólanám þrái þau að hitta vini sína og skólafélaga, þau hafi fengið sig fullsödd á ástandinu.

Með nýju reglunum, sem eiga að gilda til 3. janúar, er börnum í 5. til 10. bekk og öllum framhaldsskólanemendum gert að stunda fjarnám.

Hjortdal minnir á að um helgina söfnuðust um 100 ungmenni saman á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn þrátt fyrir að samkomutakmarkanir miði við að aðeins tíu megi koma saman í senn.

Hann furðar sig einnig á nemendur í 9. og 10. bekkjum á Norður-Jótlandi, þar sem stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar hefur greinst, eru undanþegnir aðgerðum.

Birgitte Vedersø sem fer fyrir Danske Gymnasier, stofnun sem sinnir málefnum framhaldsskóla, tekur í sama streng. Hún kveðst ekki sannfærð um að rétt hafi verið að senda nemendur heim og segir skóla hafa gætt vel að smitvörnum.

Því hafi ungmenni fremur smitast heima fyrir, við gleðskap eða annars staðar þar sem þau komi saman. Søren Riis Paludan, prófessor í veirufræði við háskólann í Árósum, staðfestir það en kveðst þó vongóður um að hertar aðgerðir dragi úr útbreiðslu faraldursins. Það eigi líka við um yngra fólkið.

Ingrid Kjærgaard, formaður félags framhaldsskólanema, kveðst ekki sannfærð um að fjarnám sé ekki lausnin til að draga úr smitum meðal nemenda því skólarnir hafi staðið sig vel í smitvörnum og viðbrögðum þegar þau komi upp.

Hún, líkt og Hjortal og Vedersø, segir líklegt að skapraunin af því að vera alltaf heima verði til þess að ungmenni finni leiðir til að hittast. Þó séu þau almennt tilbúin að leggja talsvert á sig svo þau geti fagnað jólum með fjölskyldu sinni, ekki síst ömmu og afa.

Birgitte Vedersø kveður brýnt að áfellast ekki ungmenni fyrir að vilja hitta vini sína, það sé mikilvægt á þessum aldri. Jafnvel þótt unga fólkið geri sér grein fyrir að það sé ekki skynsamlegt freistist það til að láta slag standa.