Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Mælir fyrir frumvarpi um Hálendisþjóðgarð

08.12.2020 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra mælti nú síðdegis fyrir frumvarpi sínu á Alþingi um hálendisþjóðgarð. Þetta er í fyrsta skipti sem hann mælir fyrir þessu frumvarpi en hann sagði um einstakt tækifæri að ræða fyrir Alþingi að búa til stærsta þjóðgarð í Evrópu. Þetta yrði stærsta framlag Íslands til náttúruverndar í heiminum.

Hann sagði að Hálendisþjóðgarður yrði mikilvægur fyrir byggðirnar í landinu og ekki síst fyrir eflingu ferðaþjónustunnar. Afar ólík sjónarmið hafa komið fram í umræðunni  hingað til ekki síst frá þingmönnum Suðurkjördæmis sem margir taka undir áhyggjur sveitarfélaganna og segja að því samtali sé ekki lokið.

„Með stofnun hans felast mikilvæg tækifæri fyrir byggðirnar í landinu með eflingu opinberra starfa og starfa í ferðaþjónustu. Efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða eru umtalsverð eins og rannsóknir sýna og fjármunum til náttúruverndar því vel varið. Ég vonast til þess að okkur beri gæfa til að nýta þetta einstaka tækifæri sem Alþingi hefur nú í höndum sér.“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. 

Fjölmargir þingmenn hafa hins vegar varann á og þingflokkur Framsóknarflokks hefur fjölmarga fyrirvara. Helst er gagnrýnt að samráðið sé ekki nægilegt, sérstaklega við sveitarstjórnir og þá sem næst búi fyrirhuguðum þjóðgarði. Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi samgönguráðherra telur allt of bratt af stað farið.

„Það er áhyggjuefni að þrátt fyrir það samráð sem að hæstvirtur ráðherra talar fyrir, að þá upplifi ég það þannig að ágreiningurinn um þetta mikilvæga mál hafi aukist. Það eru margir sem upplifa þetta þannig að að það eigi að borða fílinn í einum bita. Ég held að það hafi verið óskynsamlegt við þessar aðstæður að leggja svo bratt af stað í þetta mikla verkefni,“ sagði Jón Gunnarsson.