Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gistinóttum útlendinga fækkaði um 98 prósent í nóvember

08.12.2020 - 09:29
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Bráðabirgðatölur Hagstofu Íslands gefa til kynna að gistinætur útlendinga hafi verið 98 prósentum færri í nóvember í ár en í nóvember í fyrra. Samkvæmt þeim voru gistinætur útlendinga um 7.000 í mánuðinum og Íslendinga um 17.000.

Samtals voru gistinætur Íslendinga og útlendinga því um 24.000, en í nóvember árið 2019 voru þær 329.600. Alls fækkaði þeim því um 93 prósent, gistinóttum útlendinga um 98 prósent og gistinóttum Íslendinga um 61 prósent.

Sömu gögn sýna að rúmanýting á gististöðum í nóvember 2020 var um 5,5 prósent, en í nóvember í fyrra var hún 47,7 prósent.

Bráðabirgðaniðurstöðurnar, sem Hagstofan kallar tilraunatölfræði, byggja á gögnum frá um það bil fimmtungi gististaða, en gefa oftast nokkuð nákvæma vísbendingu um endanlega niðurstöðu.