
Gagnrýna breytingar á lögum um ofanflóðavarnir
Bæjarráð Fjallabyggðar bókaði á fundi sínum morgun umsögn um frumvarp að lögum þar sem til stendur að gera breytingar á núverandi lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum nr. 49/1997.
Sveitarfélögin sitji uppi með tjón af snjóflóðahættu
Meðal annars telur bæjarráðið að þegar kostnaður við eftirlit með snjóflóðahættu verði færður yfir til skíðasvæðanna sé hætt við að hagsmunum þeirra verði ekki gætt sem skildi þegar kemur að almannavörnum sökum hættu á ofanflóðum. Þá sé hætta á því, ef skíðasvæði eða önnur mannvirki lendi inn á snjólfóðahættusvæði, að sveitarfélögin sitji uppi með það tjón sem af því verður.
Miklar fjárskuldbindingar færist yfir á sveitarfélögin
Þá óttast Fjallabyggð að tug- ef ekki hundruð milljóna króna skuldbindingar verði færðar yfir á sveitarfélögin af ríkinu, því í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að sveitarfélög verði eigandi varnarmannvirkja og beri ábyrgð á viðhaldi þeirra. „Í mínum huga er algerlega skýrt að það er verið að færa ábyrgðina yfir. Ofan á það þá skil ég ekki hvernig menn ætla að gera þetta. Hvernig ætla menn að setja öll þessi snjóflóðamennvirki inn í efnahagsreikning sveitarfélaga til dæmis,“ segir Elías Pétursson, bæjarstjóri í Fjallabyggð.
Óljóst hvort tryggður verði aðgangur að fjármunum
Þá segir hann mjög óljóst hvort peningar, sem ríkið innheimtir í formi skattgreiðslna vegna ofanflóðavarna, fari í viðhald eða framkvæmdir við varnarmannvirki, eða sveitarfélögunum verði tryggður aðgangur að þessu fjármagni. „Þegar er orðið skýrt að sveitarfélögin eigi eitthvað og beri ábyrgð á því, að þá sé aðeins minni pressa að láta sveitarfélögin hafa pening. Versus það er ríkið bara hreinlega á þessi almannavarnarmannvirki og ber kostað af því, bæði að viðhalda þeim og gera þau,“ segir Elías.